28.2.05

Vika dauðans

Vika dauðans er hafin. Á morgun er ég að vinna tvöfalt, á miðvikudaginn þarf ég að klára ræðurnar og læra þær utanað, líka á fimmtudaginn og þá um kvöldið er ræðukeppnin mikla, Císero og þar mun lið íslenskunema mæla með því að kynferðisafbrotamenn verði GELDIR. Já, krakkar mínir, missið ekki af ræðuskörungum aldarinnar rústa liði stjórnamálafræðinema! Á föstudaginn er svo langþráð árshátíð. Vá hvað ég verð fegin þegar vikan er liðin. Svo eru líka mánaðarmót og hundrað reikningar sem þarf að borga. Ó Ó ó.
En ég vil þakka Siggu fyrir hlý orð í minn garð og þakka henni andlegan stuðning í fornamálsverkefninu við fund á hæðum og risum og þungum atkvæðum í dróttkvæðum vísum Egils Skallagrímssonar. Ég vona bara að við fáum báðar 10! Siggu verður bætt við á linkalistann um leið og hægist um. Annars var ég að setja inn fullt af sniðugum, seðjandi og pólitískum hlekkjum um daginn. Czech it out!

|

27.2.05

Undarlegar draumfarir

Ekki nóg með að ég hafi verið að reykja maríúana með Youssou N'Dour þar síðustu nótt, heldur var ég í nótt stödd á tónleikum með Jaromír Nohavica, sem er frábær tékkneskur trúbador.. ég elska hann! Síðan bjó ég í stóru húsi og þar hafði laumast inn risastór sígaunafjölskylda sem bjó á háaloftinu.. en pabbi vissi um það! Og ég skyldi ekkert í því, en fannst það samt líka dæmigert fyrir sígauna, að þau höfðu öll verið á tónleikunum, en miðinn hafði verið mjög dýr, en samt bjuggu þau bara í laumi á háaloftinu hjá okkur! alla malla.. jæja, dróttkvæðin bíða með hæðum og risum...

|

26.2.05

Tosca



Fór á Toscu í gærkvöldi, sem var mjög gaman. Síðan dreymdi mig að ég færi í heimsókn til Rutar, en hún bað mig eiginlega um að fara.. sem var allt í lagi því þá hitti ég Alex vin minn í Prag og Youssou N'Dour sem voru að fara að reykja Marjúana! Híhíhí

|

23.2.05

Hello!

Góðan daginn sko, aðeins að missa mig hérna í hello.com sem er einmitt provided by picasa.com eða eitthvað.. dúdda mí...

|

.. Posted by Hello

|

Krúnka þegar hún kom óvart í Þorrablót til mín en fólkið sem hélt Þorrablótið var sko flutt... Posted by Hello

|

Fyrir Posted by Hello

|

Alveg að sofna á bókhlöðunni...

bara að minna sjálfa mig á það hversu víðförul ég er nú, þrátt fyrir það...

|

21.2.05

Kvöldmatur

Hálffyllið pott af vatni
skellið útí slatta af bankabyggi, grænmetissúputeningi og 2 hvítlauksrifjum
látið sjóða

hrærið í bolludeig:
til um það bil helminga hvítt hveiti og kjúklingabaunamjöl
hörfræ
púðursykur
heitt vatn
hálfur þurrgerspoki
hrærið saman og bætið smá hunagi útí
látið degið hefast

bætið tómatpúrre og einum frosnum spínatkubb útí bankabyggið. Vatn eftir þörfum.

Hnoðið bollur úr deginu, látið hefast örlítið lengur og skreytið með ólívuolíu og sólblómafræum áður en bakað.

Setjið súpuna í skál og nokkra dropa af tabascosósu útá. Takið bollurnar út úr ofninum og látið þær kólna aðeins áður en þær eru etnar með smjöri.



|

17.2.05

Ach ach.. hræsnarar.. vitið þið ekki enn svarið við getraun vikunnar?
Ókei, þetta var úr reisúbók Jóns Indíafara...

|

16.2.05

Hið ótrúlega

Nú hefur það ótrúlega gerst að kappi einn úr mínum forna bekk í grunnskólanum á Hellu hefur búið til bloggsíðu í þeim tilgangi að koma saman bekknum og halda REJÚNÍON!!! Frábær hugmynd! Þetta fólk er nú allt vel flest búið að koma sér svona sæmilega fyrir í lífinu held ég, í það minnsta að vinna að því, og einn búinn að eignast barn.. held ekki fleiri. Já það held ég nú. Ég hef ekki haft neitt samband við neina úr bekknum mínum, enda munið þið, góðu vinir hvernig ég var þegar ég byrjaði í MH, með sár á sálinni eftir hörmungarárin í Helluskóla. Nei nei, ég segi bara svona... ég meina, hverjum líður vel í grunnskóla anyway?

|

15.2.05

Þetta hræðilega

Ó ó:
Nú er ég búin að fá mér dísætan hafragraut með sultu eftir Hildi frænku og vanillusykri sem Guðrún Dalía marði í höndum sér og gaf mér í gullfallegri krukku með barbieservíettu. Gullfalleg hún Gulla.
Ég skrópaði í skólanum í morgun! Í fyrsta sinn á þessari önn! Æi, það var hvort sem er svo agalega stuttur tíma svo agalega snemma og þar sem ég hef þjáðst af áfallastreitu alla helgina, þ.e. síðan ég lenti í þessu hræðilega (sem var reyndar á sunnudaginn) varð ég bara að leyfa mér aðeins að blunda. Robertino glymur mér í eyrum og nú kemur sagan af ,,þessu hræðilega”.

Á sunnudaginn fór ég á Eivarartónleikana (smá áfallastreita að fara á þá, því þessir tónleikar voru soldið skrýtnir..) og áður eldaði ég mér mat. Rauðar baunir to be precise. Ég borðaði smá en ákvað samt að láta þær aðeins krauma á meðan ég var að hafa mig til. Síðan kom vinkona mín og sótti mig og ég þusti út. Það var ekki fyrr en eftir tónleikana, á leiðinni heim, að mér datt í hug að ef til vill hefði ég EKKI slökkt undir baununum, en ég hafði stillt á lægsta hita. Við þetta varð mér um og ó, en trúði sjálfri mér eiginlega ekki til þess, venjulega fær maður svona hugskeyti þegar maður hefur einmitt slökkt á öllu. Alla vega, ég varð svolítið stressuð og sá fyrir mér að slökkviliðsbílar myndu standa í röðum fyrir utan húsið mitt og allt væri vaðandi í eldi og brennisteini. Svo var ei þegar heim kom. Ég flýtti mér inn og á móti mér tók mjög mjög mjög vond lykt, en enginn eldur og enginn reykur að ráði. Maturinn að mestu brunninn auðvitað (þó ekki allur, merkilegt nokk!). Úff. Hvernig á manni að líða þegar maður var næstum búinn að brenna húsið ofan af sér og öðrum!? Ég fór strax með pottinn út og skóf matarleifarnar sem voru óbrunnar í ruslapoka og fór svo út með ruslið. Í þann mund stigu manneskjur tvær af efri hæðinni út á svalirnar og ég sagði að eitthvað hefði brunnið við hjá mér. Þá segir maðurinn, sem ég sá ekki betur en að væri hinn góðkunni Heiðar snyrtir: Já, ég var einmitt að segja að annað hvort væri verið að elda eitthvað mjög kryddað eða rosalega framandi mat!.. Já, eða leggja líf og limi saklauss fólks í hættu hugsaði ég og hökti miður mín inn í fýluna aftur. Hringdi svo í Tobbu sem veitti áfallahjálp og leyfði mér að gista hjá sér og við skildum eftir edik í ílátum um allt. En af pottinum er það að frétta að ég náði að þrífa hann með ediki og sítrónusafa og með berum höndum skóf ég úr botninum a.m.k. eins sentimeters lag af svörtum matarleifum. Oj. En nú er lyktin farin. Guði sé lof og dýrð að allt fór vel!

|

14.2.05

Eivör hin magnaða

Í gær fór ég á tónleika með Eivöru Pálsdóttur Færeyingi. (Eftir það lenti ég í þessu hræðilega.) Hún kom fram með KaSakvintettnum og einhverjir tónskáldamenn voru búnir að útsetja lögin hennar. Útsetningarnar voru mjög svo misgóðar og enn sannaðist hversu vandasamt það er að blanda saman klassískum listamönnum og svo svona einlægum og guðdómlegum yfirnáttúrulegum undrum eins og hún Eivör tvímælalaust er. Eivör er líka svo mikil spunakona. Mér fannst oft vanta flæði hjá KöSunum, og stundum var mjög greinilegt að þær höfðu farið út af laginu, og þá var svo óeðlilegt að þær gátu ekki bara spunnið sig inn aftur, heldur voru þær bara alveg lost og litu hver á aðra og hættu við að munda hljóðfærin.. Frekar hallærislegt. En auðvitað var samt margt fallegt og vel heppnað líka. Eivör er með magnaða rödd og breyttist í galdrakonu þarna. Ég held að hún komi frá Valhöll og sé dóttir Seifs eða annarra jötna. Hún er ótrúleg. Langskemmtilegust var hún ein, því stundum var eins og hljóðfæraleikararnir væru bara fyrir, eða pössuðu bara ekki við þetta, það var þetta flæði sem oft vantaði. Ég fékk sömu tilfinningu og þegar ég fór á Krónos-kvartettinn og hlustaði á hann spila einhverskonar þjóðlagatónlist sem hafði verið "samin" og útsett, ekki bara leikin af fingrum fram eins og hún er upprunalega. Það missir einhvern veginn marks. Eins og ef einhver ætlaði að fara að kveða rímur eftir nótum. Mér fannst það há þeim klassísku að þær væru klassískar og lá við að ég ákvæði að vera á móti klassísku tónlistarnámi!

|
Í gær lenti ég í hræðilegu.

|

11.2.05

Item: Ný vinkona

Ég er búin að eignast nýja vinkonu. Ég kalla hana Bólu og hún býr á hökunni á mér. Á eftir ætla ég að taka Bólu með á Þorrablót íslenskunema. Hún á vonandi eftir að skemmta sér vel með mér.

|

9.2.05

Getraun vikunnar.

Elskulegir vinir!
Skylt væri að ég ei fundinn yrði í of miklu óþakklæti fyrir
Guðs furðanlegar, margs konar og óteljanlegar velgjörðir, sem hann mér af
sinni skærri náð, miskunn og gæsku svo mjúklega og mildilega veitt hefir,
bæði til líkama, lífs og sálar, í svefni og vöku, á nótt sem degi, á sjó og landi í ýmsum áttum veraldar, undir heitu lofti og köldu, í fjarlægð og nálægð
míns föðurlands, á meðal kristinna og heiðinna þjóða, í meðlæti og mótlæti.
Hverjar hans margar og miklar velgjörðir og dásemdarverk mér hefði sannarlega borið og hæft við að hrósa, virða og víðfrægja bæði hér innanlands
og utan, hvað ég þó, því miður, ei gjört hefi, sem mín frek skylda var til, hverja forsómun og hirðuleysi sá náðugi Guð virðist mér að fyrirgefa, sem og öll mínj afbrot og misgjörðir.

Hver skrifaði þetta? Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta!
Verðlaun eru eilífur trúnaður og virðing T.S.

|

Guð á glugga

Ég get svo svarið það það er einhver að berja hérna svoleiðis í vegginn hinumegin að ég bíð bara eftir að fá hamarinn í gegnum vegginn.

|

8.2.05

Af íslenskum ruddaskap og menningarsjokk nr. II.

Á Íslandi hefur það þrennt löngum verið talið til dyggða, að hafa fasta atvinnu, jafnvel fleiri en eina, eiga farsíma og bíl.

Ég hef einnig verið að þessu leyti dyggðum prýdd, verið í þremur störfum í einu, ásamt námi, og átt 2 farsíma á ævinni.
En bílar. Svei ó nei.
Ég varð eiginlega svolítið hissa þegar ég áttaði mig á því á dögunum, að bílar ERU almenningseign á Íslandi. Mér brá. Í mið-Evrópu, og áreiðanlega víðar í heiminum, eru bílar nefninlega alls ekki almenningseign. Og ef fólk á bíl, þá notar það hann í mesta lagi til að ferðast út á land, eða til annarra landa. Ekki til að keyra á um inni í borginni. Núorðið geta Íslendingar ekki skroppið neitt, ekki einu sinni í næsta hús, án þess að vera í bíl. Og í bílnum fá ýmsar tilfinningar útrás, sem annars væru innibyrgðar yfir háveturinn. Og á hverjum bitna þessar tilfinningar? Mér. Gangandi vegfarendum. Brun brun.. best að bruna yfir þótt ljósið sé við það að verða RAUTT þótt það sé manneskja þarna á leiðinni yfir götuna. Er ekki í lagi með fólk?

Háskólinn liggur suðvestanmegin við Hringbraut. Þegar fólk sem kemur austan að nálgast þessa braut, þarf það iðulega að ýta á þartilgerðan hnapp ef það vill ekki verða fyrir bíl. Þegar græni kallinn kemur hlaupa allir nærstaddir yfir götuna, því þeir vita sem er að þessi kall varir aðeins í 10 sekúndur, og það er a.m.k. hálf mínúta í þann næsta. Þótt maður sé enn að ganga yfir götuna og græni kallinn farinn að blikka og gula ljósið farið að blikka heyrir maður strax óþolinmæðidrunurnar úr bílunum, sem ráða alls ekki við sig, tærnar kitla bensíngjöfina og þeir verða að fá að bruna af stað. Geta bara alls ekki haldið í sér. Í morgun náði ég yfir götuna, og gekk hægt yfir, því mig langaði aðeins að ergja þessa ergilegu bílstjóra. Þegar ég kom yfir var önnur manneskja að labba yfir aðra akgreinina, og það fór bíll að flauta á hana! Halló! Það var ekki komið grænt ljós!!!!!!!! AAAAAAAAAAAAAAAAA!!!!!! Konan hafði forgang sem gangandi vegfarandi! Það er ekkert sem gerir fólk jafnsjálfselskt og bílar og ég hata þegar fólk getur ekki einu sinni verið kurteist í umferðinni!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

|

7.2.05

Draumur

Mig dreymdi einhver ósköp í nótt, sérstakleg að ég var búin að bjóða Ástu í mat og ætlaði að elda einhvern skelfisk og eitthvað.. Hér er snjór og ég fékk bollur í gær, en mér varð eiginlega bara illt af þeim.
Á föstudaginn fór ég út með Rut og endaði óvart pínu full og dansóð á kaffibarnum eftir 3 bjóra.. komum heim klukkan 5 og tróðum í okkur ógeði sem við keyptum í 11-11 sem er einmitt opin allan sólarrhinginn niðri á skúlagötu..Morguninn eftir var ég síðan að fara á fullt af æfingum upp í tónó, grautsyfjuð og svona frekar hás. Það fór samt allt vel, enda stelpurnar svo rosa hressar.. Ég vitna í tótu, leiðinlegasta færsla í heimi?

|

4.2.05

Ich wünsch ich wäre ein Föglein und flüge über das Mehr!


Spurning dagsins: Eftir hvern er þetta ljóð, úr hvaða ljóðabálk er það og hver samdi tónlistina við þennan ljóðabálk?








|

3.2.05

Afrek mín stór og smá

Hjúff.
Þvílíkur spretthlaupa dagur. Og ég er ekki ennþá komin í mark. Hrökk upp klukkan 6 30 í morgun við þann draum að fyrirlesturinn sem ég var að fara að halda nokkrum tímum seinna væri að hefjast og ég væri bara ennþá sofandi eða eitthvað, en svaf svo til 7 og snúsaði til 7 36 að ég hrökk upp og hringdi í Ingu og Níels til að vekja þau in case..og svo dreif ég mig í strætó í bókmenntasögutíma og svo fluttum við ógleymanlegt atriði um Úlfhamsóperu og fjölluðum létt um það hvernig sú saga gæti komið út sem ópera. Allt mjög léttvægt og ófræðilegt. Klikktum svo út með að flytja atriði þar sem Hildur og Úlfhamur syngjast á (ég og Níels) og sögumaðurinn spilaði á fiðlu í fimmundum. Þetta var MAGNAÐ! Fagnaðarlátum ætlaið aldrei að linna og kennaranum fannst hryðjuverk hafa verið framið..
Því næst hékk ég á netinu í allt of langan tíma og fór svo í Norræna húsið og las DV og át óþverra þangað til fundur ritnefndar hófst. Síðan fór ég aðeins heim og skrifaði fjöldann allan af mikilvægum emailum, þangað til ég fór og tók viðtal við kínverska konu við nám í HÍ. Það var nú aldeils skemmtilegt. Og næst á dagskrá er ræðukeppni HÍ. Fyrsta umferð. Lyfjafræði og rafmagnsverkfræði. Með og á móti gömlu fólki. Ég er nefninlega í íslenskudeildarræðuliðinu. Don't ask me why.
Og nú er ég í Árnagarði og skúringagellan er búin að skúra svoleiðis í kringum mann að maður hverfur næstum því. Æfing í tónó á morgun! Vei, ég er farin að æfa mig aftur. Rólegur laugardagur með setningafræðilegu ívafi, og jafnvel tónleikum. Og BOLLUKAFFI á sunnudaginn! Ég hef ekki fengið bollur í 3 ár!!!!!!!!!!!!


|

2.2.05

I'm a kid! I'm a kid!





You Are 22 Years Old



22





Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.

13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.

20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.

30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!

40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.




Ég verð að segja að þetta er mér mikill léttir. Mér hefur fundist ég svo gömul upp á síðkastið, þið vitið, fasteignagjöld, fokking ruslatunnugjöld og allt þetta..

|