15.2.05

Þetta hræðilega

Ó ó:
Nú er ég búin að fá mér dísætan hafragraut með sultu eftir Hildi frænku og vanillusykri sem Guðrún Dalía marði í höndum sér og gaf mér í gullfallegri krukku með barbieservíettu. Gullfalleg hún Gulla.
Ég skrópaði í skólanum í morgun! Í fyrsta sinn á þessari önn! Æi, það var hvort sem er svo agalega stuttur tíma svo agalega snemma og þar sem ég hef þjáðst af áfallastreitu alla helgina, þ.e. síðan ég lenti í þessu hræðilega (sem var reyndar á sunnudaginn) varð ég bara að leyfa mér aðeins að blunda. Robertino glymur mér í eyrum og nú kemur sagan af ,,þessu hræðilega”.

Á sunnudaginn fór ég á Eivarartónleikana (smá áfallastreita að fara á þá, því þessir tónleikar voru soldið skrýtnir..) og áður eldaði ég mér mat. Rauðar baunir to be precise. Ég borðaði smá en ákvað samt að láta þær aðeins krauma á meðan ég var að hafa mig til. Síðan kom vinkona mín og sótti mig og ég þusti út. Það var ekki fyrr en eftir tónleikana, á leiðinni heim, að mér datt í hug að ef til vill hefði ég EKKI slökkt undir baununum, en ég hafði stillt á lægsta hita. Við þetta varð mér um og ó, en trúði sjálfri mér eiginlega ekki til þess, venjulega fær maður svona hugskeyti þegar maður hefur einmitt slökkt á öllu. Alla vega, ég varð svolítið stressuð og sá fyrir mér að slökkviliðsbílar myndu standa í röðum fyrir utan húsið mitt og allt væri vaðandi í eldi og brennisteini. Svo var ei þegar heim kom. Ég flýtti mér inn og á móti mér tók mjög mjög mjög vond lykt, en enginn eldur og enginn reykur að ráði. Maturinn að mestu brunninn auðvitað (þó ekki allur, merkilegt nokk!). Úff. Hvernig á manni að líða þegar maður var næstum búinn að brenna húsið ofan af sér og öðrum!? Ég fór strax með pottinn út og skóf matarleifarnar sem voru óbrunnar í ruslapoka og fór svo út með ruslið. Í þann mund stigu manneskjur tvær af efri hæðinni út á svalirnar og ég sagði að eitthvað hefði brunnið við hjá mér. Þá segir maðurinn, sem ég sá ekki betur en að væri hinn góðkunni Heiðar snyrtir: Já, ég var einmitt að segja að annað hvort væri verið að elda eitthvað mjög kryddað eða rosalega framandi mat!.. Já, eða leggja líf og limi saklauss fólks í hættu hugsaði ég og hökti miður mín inn í fýluna aftur. Hringdi svo í Tobbu sem veitti áfallahjálp og leyfði mér að gista hjá sér og við skildum eftir edik í ílátum um allt. En af pottinum er það að frétta að ég náði að þrífa hann með ediki og sítrónusafa og með berum höndum skóf ég úr botninum a.m.k. eins sentimeters lag af svörtum matarleifum. Oj. En nú er lyktin farin. Guði sé lof og dýrð að allt fór vel!

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home