20.11.12

Heimili

Í dag er yngri dóttirin með lurðu og fær að vera heima, enda ekki sjálfri sér lík. Hún er þó ekki með streptókokka staðfesti hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni, en samt með rauðan háls og lasleg, skinnið.
Ég er því heima og fjarri góðu gamni í vinnunni.
Heimilið er í rúst eins og áður hefur verið nákvæmlega lýst. Ég er samt komin nokkuð áleiðis með að henda alls kyns nytjalausu drasli sem hefur safnast í alla skápa og skúffur. Annað mál er að losa sig svo við góssið í svörtum ruslapokum, það bíður betri tíma en verður búið fyrir jól.
Ég notaði því tækifærið og tók til í eldhúsinu (já, þetta er fréttnæmt!). Svo stífði ég eina bjöllu í gærkvöldi, en ég hef ekki snert á bjölluhekli síðan jólin.. 2009 líklega, þegar ég fór langleiðina með að klára seríu eftir námskeið hjá nöfnu minni. Var ekki nógu ánægð með einhverjar bjöllurnar og nú vantar 3-4 á seríuna en bara í dag er ég búin að hekla eina og liggur hún nú í þykku sykurvatni. Þetta er svo gaman.. Stundum væri ég til í að gera bara þetta alla daga, þ.e. baka, hekla og snurfusa heimilið og sjálfa mig. Ég er farin að hlakka ótrúlega mikið til jólanna, kannski vegna þess að desember í ár verður próflaus í fyrsta sinn síðan ég veit ekki hvenær hreinlega, kannski 2003, og ég ætla svo sannarlega að njóta þess.
Næsti draslpistill verður sendur út eftir næstu tiltektarlotu!
Góðar stundir.




|

18.11.12

Tígull

Bloggupprisan er slík að nú er bloggað án afláts.

Nema hvað að þegar ég var búin að hræra upp í sjálfri mér og kössunum í svefnherberginu bárust mér þær fréttir frá snöktandi móður að hundurinn væri allur. Það svo sem kom ekki á óvart, hann hafði verið lélegur til heilsunnar, einkum upp á síðkastið, kominn á gigtarlyf og hjartalyf eins og hvert annað gamalmenni, enda orðinn 15 ára gamall.
Það varð hins vegar raunverulegra þegar ég fór að kveðja hann og snerti kalda snoppuna, en brosið var enn til staðar, dauft, í svipnum hans.
Tígull var einstaklega vel gefinn hundur og Hafstaðs-systurnar kunna margar góðar sögur af honum, en við fengum hann, hreinræktaðan og ættbókarfærðan, frá þeim. Hann var svo lánsamur að eignast hvolpa, að minnsta kosti einn ef ekki tvo, og í dag vorum við að skoða svo skemmtilegar myndir þegar tíkin kom af nærliggjandi bæ með hvolpinn með sér í heimsókn og Tígull brosti hringinn af stolti.
Það var svolítið erftitt að tilkynna börnunum þetta, fyrsta sorgin og var tekið með miklum gráti af J, mikilli óskilgreindri geðshræringu af M en heimspekilegu jafnaðargeði af T. Það verður án efa tómlegt í koti karls og kerlingar þegar þessi ljúfi fjölskyldumeðlimur er fallinn frá.

|

Hreinsun.

Ja hérna.
Boggið lifir þá sem sagt enn! Með uppfærðu viðmóti hr. Bloggers sem fylgdi mér í svo mörg ár.
Morgunskíman er rétt farin að myndast yfir sjóndeildarhringnum héðan úr eldhúsinu í Ljósheimunum. Kaffið kraumar á könnu og við hlið mér situr tæplega fimm ára gömul dóttir mín og borðar skyr. Sú er mikill sólargeisli, með brúnu augun sín og hrokkna hárið, svo gjörólík systkinum sínum, bæði í útliti og líka í sér. Minnir mig á þegar elsta dóttir mín fæddist, hvað ég fylltist löngun til að eignast 5 börn, bara til að sjá hvað ég gæti búið til margar mismunandi útgáfur af sjálfri mér. Ég virðist hafa lent á óskastundinni því ekki svo löngu seinna voru komin fleiri börn í bú. Ég held ég sé ennþá að jafna mig á þeirri staðreynd.
Ástæðan fyrir því að ég gríp bloggandann á lofti er sú að ég er að fara í gegnum dót. Svolítið sem ég á einkar erfitt með, því ég er "minningasjúk" eins og góð vinkona sagði einu sinni við mig. Við erum að tala að um að geyma allt, til minningar og ekki síst heimildar fyrir komandi kynslóðir, um liðna tíð. Ég fer í gegnum hvert bréfabindið á fætur öðru og hendi reikningskvittunum síðan 2005. Gömlum nótum, skólaverkefnum, teikningum eftir börnin, bréfum, öllu þessu hef ég haldið til haga af mikilli samviskusemi á minn kaotíska hátt, en nú er víst mál að linni. Mér þykir þessi úthreinsun óendanlega erfið, svo liggur við þunglyndi. Bæði vegna þess að á meðan á henni stendur er allt í rúst, og var ekki á bætandi. Ástandið á heimilinu endurspeglar víst óreiðuna hið innra. Og líka vegna þess að mér finnst erfitt að losa mig við ýmsa hluti sem hafa fylgst mér lengi, þrátt fyrir að geymsla þeirra hafi engan tilgang, nema þá helst að minnka pláss og valda þannig aðþrengslum, sem er töluverð fyrir, verð ég að segja. Það er því af sáluhjálp, að ég hef aftur bloggið, til að skrifa mig út úr þessu tímabili í leiðinni. Núna þegar maður er orðinn útivinnandi ofan á allt annað og sífellt erfiðara að finna tóm fyrir hinar skapandi kenndir, kemur kannski ekki að sök að leyfa mínum innri penna að fá útrás í öðru en fagtengdum textum. Reyndar var það einnig svo, að í kössum leyndust ýmis skrif, falleg og gömul, sem eru nú a.m.k. komin upp á yfirborðið, hvað svo sem verður. Það er líka léttir. Svo nú er ég, skjalavörður lífs míns, að flokka all gróflega líf mitt í kössum síðastliðinna 6-7 ára. Jamm. Í kössunum leynist ótrúlega margt, möppur, gömul tónleikaprógrömm, og leiðinda lögfræðiskjöl. Leigusamningar síðan ég var að leigja út Hringbrautina, og kvittanir af rafmangsreikningum og hússjóðsgjöldum. Já það er mál að linni. Mér finnst erfiðast að fara í gegnum nóturnar, þvílík ógrynni af þeim, en á ég eftir að syngja þessi lög aftur?! Það er óttinn við að eitthvað sé endanlegt sem veldur því að þetta er svona kvíðvænlegt verkefni.

Það kemur mér á óvart að fullorðnast. Það er eitthvað gott -vont við það að horfast áfram í augu við sjálfan sig í tímans rás. Sættast við sjálfan sig um leið og maður hellir úr sálinni og fleygir þaðan ýmsu rusli og hlutum sem hefðu betur verið gleymdir en geymdir.

En um jólin verður þetta afstaðið og sálartetrið hvítskrúbbað og glansandi. Þá verður gaman.



|

23.4.10

Miriam Makeba - Kilimanjaro


|

20.3.10

Komin aftur!

Ég ætla að gefa blogginu annan séns.
Ég er búin að byrja nokkrum sinnum aftur, á öðrum stöðum, en ég kann bara langbest við mig á blogger.
Veit svo sem ekki hvort lesendur verði margir, en amk verður þetta heimild um mig og mitt líf.
ENjoy!

|

18.2.09

Whitney Houston - My Love Is Your Love

Fannst þetta svo geggjað lag og æðislegur kjóll/kápa sem hún er í.


|

Whitney Houston-I wanna dance with somebody (Best Quality!)

Var búin að gleyma hvað Whitney er mikil gella.


|

2.2.09

The Fugees - Nappy Heads


|

21.1.09

Joni Mitchell - Goodbye Pork Pie Hat

Sjitt!


|

Joni Mitchell-California (BBC)

Geggjað.


|