20.11.12

Heimili

Í dag er yngri dóttirin með lurðu og fær að vera heima, enda ekki sjálfri sér lík. Hún er þó ekki með streptókokka staðfesti hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni, en samt með rauðan háls og lasleg, skinnið.
Ég er því heima og fjarri góðu gamni í vinnunni.
Heimilið er í rúst eins og áður hefur verið nákvæmlega lýst. Ég er samt komin nokkuð áleiðis með að henda alls kyns nytjalausu drasli sem hefur safnast í alla skápa og skúffur. Annað mál er að losa sig svo við góssið í svörtum ruslapokum, það bíður betri tíma en verður búið fyrir jól.
Ég notaði því tækifærið og tók til í eldhúsinu (já, þetta er fréttnæmt!). Svo stífði ég eina bjöllu í gærkvöldi, en ég hef ekki snert á bjölluhekli síðan jólin.. 2009 líklega, þegar ég fór langleiðina með að klára seríu eftir námskeið hjá nöfnu minni. Var ekki nógu ánægð með einhverjar bjöllurnar og nú vantar 3-4 á seríuna en bara í dag er ég búin að hekla eina og liggur hún nú í þykku sykurvatni. Þetta er svo gaman.. Stundum væri ég til í að gera bara þetta alla daga, þ.e. baka, hekla og snurfusa heimilið og sjálfa mig. Ég er farin að hlakka ótrúlega mikið til jólanna, kannski vegna þess að desember í ár verður próflaus í fyrsta sinn síðan ég veit ekki hvenær hreinlega, kannski 2003, og ég ætla svo sannarlega að njóta þess.
Næsti draslpistill verður sendur út eftir næstu tiltektarlotu!
Góðar stundir.




|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home