14.2.05

Eivör hin magnaða

Í gær fór ég á tónleika með Eivöru Pálsdóttur Færeyingi. (Eftir það lenti ég í þessu hræðilega.) Hún kom fram með KaSakvintettnum og einhverjir tónskáldamenn voru búnir að útsetja lögin hennar. Útsetningarnar voru mjög svo misgóðar og enn sannaðist hversu vandasamt það er að blanda saman klassískum listamönnum og svo svona einlægum og guðdómlegum yfirnáttúrulegum undrum eins og hún Eivör tvímælalaust er. Eivör er líka svo mikil spunakona. Mér fannst oft vanta flæði hjá KöSunum, og stundum var mjög greinilegt að þær höfðu farið út af laginu, og þá var svo óeðlilegt að þær gátu ekki bara spunnið sig inn aftur, heldur voru þær bara alveg lost og litu hver á aðra og hættu við að munda hljóðfærin.. Frekar hallærislegt. En auðvitað var samt margt fallegt og vel heppnað líka. Eivör er með magnaða rödd og breyttist í galdrakonu þarna. Ég held að hún komi frá Valhöll og sé dóttir Seifs eða annarra jötna. Hún er ótrúleg. Langskemmtilegust var hún ein, því stundum var eins og hljóðfæraleikararnir væru bara fyrir, eða pössuðu bara ekki við þetta, það var þetta flæði sem oft vantaði. Ég fékk sömu tilfinningu og þegar ég fór á Krónos-kvartettinn og hlustaði á hann spila einhverskonar þjóðlagatónlist sem hafði verið "samin" og útsett, ekki bara leikin af fingrum fram eins og hún er upprunalega. Það missir einhvern veginn marks. Eins og ef einhver ætlaði að fara að kveða rímur eftir nótum. Mér fannst það há þeim klassísku að þær væru klassískar og lá við að ég ákvæði að vera á móti klassísku tónlistarnámi!

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home