24.2.06

Í gær fór ég í heita pottinn og hlustaði á þrjá sjálfumglaða sentralíseraða Íslendinga tala fjálglega um stöðu mála í heiminum. Múllarnir voru óþjóðalýður, best væri að byggja múr og láta þá sjá um sín mál sjálfir, já það á bara ekkert að skipta sér af þeim, ekki eiga viðskipti við þá eða neitt, já neinei, það þýðir ekkert að skipta sér af þeim, það er sko búið að reikna það út, að Vesturlönd og Bandaríkin þurfa ekki að spara nema 6% í olíukaupum til að geta bara HÆTT að versla við Arabalöndin sko, það er nú ekkert öðruvísi.. þetta er svoleiðis kolklikkað og vill ekki læra málin og vill ekki aðlagast, það er búið að innræta því að hata kristna menn, hvernig heldurðu að þetta verði þegar það vex upp? Guð minn góður. Því miður því miður því miður sagði ég ekkert við þá, en ranghvolfdi í mér augunum við næsta mann.. sem var mér sama sinnis. AAAAAAAARRRRRRRRRGGGGGGGGGGGG. Vesturlönd sem standa nú ekki fyrir neitt annað en mannréttindi og jafnrétti bla bla bla bla bla bla bla bla bla.
Svo er ég með tvær hjúmongus bólur í andlitinu. Held ég sé að fá rauða hunda. Kúljó biður að heilsa.

|

22.2.06

Æ, er enginn til í að hressa mig við?

|

18.2.06

Og áfram árin líða, til ókominna tíða

Á þessu ári mun ég hafa lifað í aldarfjórðung. Barnið sparkar svo mikið að ef það er strákur mun hann verða nefndur Sparkaður. Stundum held ég að hann ætli út um munn minn eða maga, lætin eru slík, en það mun hann gjöra á endanum hvort sem er, ef náttúran leyfir. Tíminn líður trúðu mér. Bráðum selst Hverfisgatan og píparinn kemur og segir hvað það kostar að búa til nýtt baðherbergi. Gufuvélin andar gufu á veggina og veggfóðrið flagnar af, í þessum töluðu orðum. Hitarinn hitar málninguna af gluggunum og hún flögrar sömuleiðis af. Ég borða REMI kex af bestu lyst og reyni að fá botn í tímann sem líður og líður. Nú verð ég samt að fara að sofa því ég var á næturvakt og er bara búin að sofa í 2 tíma. Svo fór ég að keyra um og menga með Victor í farþegasætinu og kaupa hanska og ýmsa hluti sem eru nauðsynlegir við framkvæmdir sem þessar. Svo fór ég og verslaði í Krónunni sem er nú hálfu verri en versti kommúnistamarkaður á sovéttímanum, ímynda ég mér. En hvað veit ég svo sem um það. Ekkert. Ég hef aldrei verið í kommúnistalandi á kommúnistatíma. Svo ég veit ekki hvað ég er að ljúga til í líkingum byggðar á einhverju sem ég ekki þekki. Hins vegar get ég ímyndað mér ýmislegt. Ímyndunaraflið kemur manni langt. Jafnvel á kortið. Ég ímynda mér að Píparinn segi að það kosti ekki meira en 200þúsund að búa til nýtt baðherbergi, en ég veit að hann mun líklega segja eitthvað nær 500 þúsundum. En hvað um það. Maður lifir bara einu sinni, og þá vill maður kannski pissa í klósett sem ekki er hlandgult á litinn og staðsett á fáránlegasta staðnum á öllu baðherberginu. Svo kann ég ákvaflega vel við hljóðbreytinguna nÞ > nn. Kunþs. Munþs. Kannski Tinna hafi þá einhvern tímann verið Tinþs. Hér sjáiði tímann sjálfann:


|

13.2.06

Hringiðan

Allt er komið á fullt í hringiðu hins daglega lífs. Brauðstritið. Ég er orðinn eigandi að verkamannabústað við hliðina á Héðni að flytja kommúnistaávarp, og elliheimilinu Grund þar sem gamlir verkamenn eyða ellinni. Barnið mitt mun kannski leika sér við þennan leikvöll einhvern daginn, skríða um parketlögð gólfin í verkamannabústaðnum og baða sig í setkarinu sem foreldrarnir láta sig dreyma um... Ef maður ætti nú peninga eins og maður skuldar þá!
Það er ótrúlega spennandi að taka allt í gegn. Það tekur bara tíma og því miður, peninga. Þótt Hringbrautin hafi mikið pótensjal þarf að brasa mikið. Reif t.d. teppið af með pabba áðan, og hann braut upp eitt hurðarop. Svo á að þilja af stofuna og búa þannig til svefnherbergi. Baðherbergið er horror, en hver veit nema það verði einhvern tímann rosaflott. Þangað til flettum við í gömlum, ítölskum hönnunarblöðum og látum okkur dreyma um veggklósett, rósótt setbaðkar og gullsturtu. Eldhúsinnréttingin er allt of lág, og eldavélin + ísskápurinn sem fylgdi ógnarstór miðað við plássið þar inni. Þetta tökum við í gegn, einhvern daginn. Þegar búið er að reisa millivegginn, rífa betrekkið af stofunni og litla herberginu og spazla í götin getum við farið að rífast um hvernig við viljum mála.
Það er besta er síðan að í dag fékk ég fáránlegt tilboð í Hverfisgötuna, gæi bauð bílinn sinn, sem áhvílandi eru á 3.1 milljón, uppí íbúðina!!
Allir iðnaðarmenn sem koma við á síðunni, sérstaklega smiðir, píparar og rafvirkjar, mega endilega hringja í mig!

|

10.2.06


Lyklarnir að nýju íbúðinni valda Tinnu bæði gleði og áhyggjum.. Posted by Picasa

|

Brjál - skelfingar allífsins 3

Jæja. Við erum búin að kaupa nýtt heimili. Áhöld eru á um hvenær flutt verður inn í slotið, en staðsett er það á Hringbraut 52. Ég er enn með hjartslátt og svitaköst eftir undirritunina, en vonandi förum við ekki á hausinn.. (= vonandi seljum við fljótt!). Og vonandi tekst okkur, fyrir 26.6.06 að búa til nýtt herbergi, taka barnaherbergið í gegn, og gólfin, og eldhúsið og baðið...
Og ef einhver rekst á Steinu þá biðjið hana að hafa samband við mig. Hún er örugglega eitthvað að díla við hann Dín sinn.. Og ef einhver vill fara með mér út á kaffihús og borða köku og sjeik þá má hann alveg hringja í mig. Ég meina, borgaði 200.000 með kortinu mínu í dag og finnst 2000 kall því ekki mikið...

|

7.2.06

Sá sem getur upp á hvaðan eftirfarandi textabrot er fær vinning:

Trens roxas eis ti Plokeing quert loppe eis yop prexs. Piy opher hawers, eit yaggles orn ti sumbloat alohe plok. Su havo loasor cakso tgu pwuructs tyu InfuBwain, ghu gill nug bo suloly sispunsiblo fuw cakiw salo anr ristwibutiun. Hei muk neme eis loppe. Treas em wankeing ont sime ploked peish rof phen sumbloat syug si phat phey gavet peish ta paat ein pheeir sumbloats.

|
Ég var að missa minnið rétt í þessu.

|



Oddný, ein af okkur!

Oddný Sturludóttir býður sig fram til 4. sætis á lista Samfylkingarinnar í prófkjöri nú um helgina. Ég hvet alla borgarbúa til að taka þátt, Oddný er sérlega frambærileg á öllum sviðum og ég veit að hún myndi koma miklu til leiðar í borgarstjórn. Kjósum Oddnýju!

|

6.2.06


Kúljó í stuði Posted by Picasa

|

Foreldrar Kúljós á góðri stundu.... Posted by Picasa

|

Coolio.

Nú þegar Coolio hefur látið á sér kræla, er sem opinber heimild hafi myndast, vinum og vandamönnum til handa að káfa á kúlunni hvenær sem þeim lystir!
WARNING: Vinsamlegast spyrjið mig hvort þið megið koma við kúluna mína! Er ekki svo viss um að ef ekki væri fyrir kúluna færi fólk að þreifa á manni kviðinn! Best að drífa sig í sónar.

|

5.2.06

Hitt og þetta

Góður dagur.
Bar út Mími í morgunsárið og verslaði. Svo kom ég heim og svaf í 2 tíma. Æfði mig og þreif. Fórum svo upp í Mos og góndum á Eurovision með öðru yfir kvöldmatnum. Fór á Little Trip to Heaven í vikunni. Fannst hún mjög góð, nema fyrsta senan pínulítið asnaleg, en það var kannski bara af því að umhverfið var svo hryllilega kunnuglegt. Góður leikur hjá aðalleikurunum, og gaman að sjá North Hastings, keyrðum einmitt þar í gegn á tökutímabilinu, að ekki sé minnst á Jack's Diner sem húkti lengi við þjóðveginn haustið 2004. Svo horfði ég á The Constant Gardener og mæli eindregið með henni. Í kvöld horfðum við svo á Veru Drake og Touretmyndina í sjónvarpinu. Gott efni. Meira glápið..
Á morgun er samlestur á óperuverkefni söngdeildarinnar, veivei.. svo þarf ég að þýða texta úr fornsænsku. Fornsænska er merkilegt nokk auðskiljanlegri en forníslenska. Pælið í því.
Að lokum þessi lesning fyrir alla aldurshópa. Góða nótt. Sylvía Nótt.

|

1.2.06

Nýtt líf

Bráðum hefst hið nýja líf. Ég er að taka til núna og á eftir ætla ég í Ikea og kaupa kassa undir föt sem ég mun vonandi komast aftur í eftir um það bil eitt ár..
Á föstudaginn voru Mozarttónleikar í Tónó og ég var í hálftíma að reyna að troða mér í og úr því sem ég hafði hugsa mér að vera í, skelfingu lostin þegar ég komst að því að það var allt einhvern veginn of lítið og asnalegt á mig. Ég var öll einhvern veginn eins og útblásin blaðra og það var ekki endilega vegna kúlustærðar.. En sem betur fer tókst mér að vera fín, en sé ekki ástæðu til annars en að pakka niður Gapbuxunum mínum og pæjutoppnum úr B-Young hið snarasta! Ef einhver vill vera með í Ikea leiðangur minn þá hafi sá hinn sami samband.

P.s. nýja könnunin er til heiðurs því að eftir viku förum við í hinn fræga 20. vikna sónar þar sem möguleiki er á kyngreiningu. Ég hef þó engan sérstakan áhuga á að vita kynið, og má búast við blóðugum slagsmálum á stofunni þar sem Victor vill ólmur vita..

|