18.2.06

Og áfram árin líða, til ókominna tíða

Á þessu ári mun ég hafa lifað í aldarfjórðung. Barnið sparkar svo mikið að ef það er strákur mun hann verða nefndur Sparkaður. Stundum held ég að hann ætli út um munn minn eða maga, lætin eru slík, en það mun hann gjöra á endanum hvort sem er, ef náttúran leyfir. Tíminn líður trúðu mér. Bráðum selst Hverfisgatan og píparinn kemur og segir hvað það kostar að búa til nýtt baðherbergi. Gufuvélin andar gufu á veggina og veggfóðrið flagnar af, í þessum töluðu orðum. Hitarinn hitar málninguna af gluggunum og hún flögrar sömuleiðis af. Ég borða REMI kex af bestu lyst og reyni að fá botn í tímann sem líður og líður. Nú verð ég samt að fara að sofa því ég var á næturvakt og er bara búin að sofa í 2 tíma. Svo fór ég að keyra um og menga með Victor í farþegasætinu og kaupa hanska og ýmsa hluti sem eru nauðsynlegir við framkvæmdir sem þessar. Svo fór ég og verslaði í Krónunni sem er nú hálfu verri en versti kommúnistamarkaður á sovéttímanum, ímynda ég mér. En hvað veit ég svo sem um það. Ekkert. Ég hef aldrei verið í kommúnistalandi á kommúnistatíma. Svo ég veit ekki hvað ég er að ljúga til í líkingum byggðar á einhverju sem ég ekki þekki. Hins vegar get ég ímyndað mér ýmislegt. Ímyndunaraflið kemur manni langt. Jafnvel á kortið. Ég ímynda mér að Píparinn segi að það kosti ekki meira en 200þúsund að búa til nýtt baðherbergi, en ég veit að hann mun líklega segja eitthvað nær 500 þúsundum. En hvað um það. Maður lifir bara einu sinni, og þá vill maður kannski pissa í klósett sem ekki er hlandgult á litinn og staðsett á fáránlegasta staðnum á öllu baðherberginu. Svo kann ég ákvaflega vel við hljóðbreytinguna nÞ > nn. Kunþs. Munþs. Kannski Tinna hafi þá einhvern tímann verið Tinþs. Hér sjáiði tímann sjálfann:


|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home