27.12.06

Gleðileg jól og gleði.



Jæja, þá eru hinir alheilögu dagar liðnir, umvafðir reyktu kéti og jólaöli. Í gær var fjölskyldujólaboðið háð með svoleiðis trylltu Trivial Persueti að annað eins hafði ekki sést í hálfa öld. Skipað var í fjögur lið og voru fjórir í hverju. Spennan var mikil og voru gestir (nota bene blóðskyldir) farnir að ógna hverjir öðrum með borðhnífnunum og ísskeiðunum með aðdróttunum á borð við: "Ert þú í þessu liði!" ef einhver svaraði rétt, eða "Þegiðu! Ég er að hugsa!" ef einhver fór að telja niður og á endanum: "Náðu í meira rauðvín fyrir mig" við börnin. Svo var dansað í kringum jólatréð við sérstakt fjórhent undirspil undirritaðrar og frænku og litla bredddan hún dóttir mín hnoðuð í bak og fyrir af ættingjum þangað til hún var þrisvar búin að gubba yfir nýja jólakjólin. Lið eiginmanns míns hafði stórsigur enda eina spurningin sem V gat ekki svarað sú "hvaða fjörður liggur á milli Flateyrar og Þingeyrar."
Dagurinn í dag fór hins vegar í heimsóknir víðs vegar um bæinn þangað til ég var búin að drekka 30 kaffibolla og horfa á Nigellu halda jólaboð en þá fór ég heim og skúraði. Á morgun ætla ég að reyna að slaka á, kannski að glugga í bækurnar sem ég fékk (engin "Bókajól" hjá "Barnafólki") og svo brenna í jólaglaðnin á Akranesi um kvöldið. Hér eru ennþá sörur í frysti. Ble á me.

|

23.12.06

Lágmarkspar aldarinnar:

Skíta og skata!

Komin í skítagallann á leið í skötuveislu, hin formlega jólakveðja birtist vonandi í dag eða á morgun.

|

21.12.06

Hnignun íslenskrar tungu


|

19.12.06

Þjófar

Andskotans handklæðaþjófar.
Í ungbarnasundi í dag svífur að mér ein móðirin í sturtuklefanum sem ég er í þann veginn að þurrka mér, með mínu eigin handklæði sem ég hafði lagt á slá ásamt Jönuhandklæði:"Þetta er mitt handklæði!" Og fer svona líka að tala um merkimiðann á því, að hann sé svona og hvort ég sé með eins og je minn eini. Ég var nú nokkuð viss um hvar ég lagði handklæðið mitt frá mér en þar sem ég var víst ekki með leibelið á hreinu (ég meina, hver man hvernig merkimiði á hvítu bómullarhandklæði lítur út? Hér eru amk ein 10 slík í notkun) vildi ég ekki malda í móinn. Svo þegar allir voru farnir var eftir eitt skítugt hvítt handklæði kuðlað uppi í hillu, með maskaraklessu í. Mitt handklæði var sko tandurhreint. Tók það með eigin höndum upp úr handklæðaskúffunni inni á baði og pakkaði niður. Gott á stelpuna þegar hún kemur heim og sér tvö handklæði með leibelinu góða. Annars er getur svo sem vel verið að einhver enn annar handklæðaeigandabjáninn hafi tekið hennar handklæði, og hún var tekið mitt af mér. Jæja, það er þó alla vega hreint! Ég tók hins vegar maskaratuskuna með mér heim, kannski ég skili henni hreinni næst. Eða ekki. Um handklæðaraunir mínar í Danmörku sjáið hér.



Ég held að Jana sé að verða eitthvað veik. Crap.

|

14.12.06

Great Success!

Jólatónleikar Tónó voru á þriðjudaginn í síðustu viku, og ég var frekar illa stemmd eftir brjálað drama með handliti (jájá, hlæjiði bara, þetta var EKKI fyndið á meðan á því stóð!), og vissi ekkert í hverju ég átti að vera og svo framvegis. Svo voru þetta svona rosalega fínir tónleikar, ótrúlega skemmtilegt prógramm og mitt atriði (sem var dúett með henni Júlíu) var þvílíkt sökksess, gestir risu úr sætum og hrópuðu BRAVA BRAVA (ókei aðeins ýkt) en það gekk semsagt alveg ótrúlega vel og var æðislega gaman. Öll tónlistaratriðin voru hvert öðru skemmtilegra og vel fluttara, meira að segja FLAUTUKÓRINN var ótmótstæðilegur! Ég er sko gjörsamlega búin að segja mig úr flautuhatarafélaginu (um það má lesa hér frá árinu 2003 þegar ég var í Danmörku..). Flauturnar hafa svei mér þá aldrei verið meiria viðeigandi en einmitt þarna, og það að spila píanósónötu eftir Mozart! Já þetta var allt saman svo gott og blessað.
Ég er búin að gera ósköpin öll af konfekti og er að vinna eins og mófó alveg fram að jólum. Aumingja Jana í pössun hjá vandalausum í dag á meðan. Og enn eymir af sörum inni í frysti. Á þollák er það svo skata og blessuð hnetusteikin, búin að kaupa allar jólagjafir nema smá handa okkur Jönu frá afa alföður. Og búin að fara í jólaklippingu. Þá er hafið hér einnig sérstakt fyrir-jóla-át, en það einkennist einkum af svelti, hnetum og kannski einu ristuðu brauði og sódavatni, en þetta mun vera gott ráð fyrir jólin, að geta þá velt sér upp úr rjómasósum, puru, möndlugraut og malti, og burstað svo tennurnar upp úr rauðkáli og farið að sofa með grænar baunir inní eyrunum... Jæja jæja jæja, klukkan er níu og ennþá svoleiðis úti niðdimm nótt. Þarf að hengja upp þvott og gá hvort aumingjans bíllinn fer í gang, bensínlaus.

|

9.12.06

I'll be home for Christmas

Jólahátíðin 2006 er sú fyrsta síðan 2001 sem ég er heima á Íslandi bæði jól og áramót. Mun ég nú skýra þetta nánar.
-Jólin 2002 var ég í Slóveníu og í Sarajevó um áramótin.
-Jól og áramót 2003 var ég í St. Paul, Minnesota hjá þá amerískum blóðforeldrum mínum.
-Jólin 2004 var ég á Íslandi og unnusti minn með mér, en á gamlársdag flaug ég til London og á nýjársdag tókum við Eurostar til Parísar og ég hitti tengdamóður mína og einn mág í fyrsta sinn.
-Jólum og áramótum 2005 var alfarið eytt í París, við bókalestur, allskyns át og drykkju sem talin hefur verið óléttum konum hættuleg, og ælupest í ísköldu húsi tengdamóður minnar (hús í Frakklandi eru MJÖG illa einangruð).
Jólin 2006 eru fyrstu jól Jönu yndislegu dóttur minnar, og það eytt lætur mig fá tár í augun! Ég er búin að skella í rúmlega 30 sörur og ætla að reyna að föndra jólakort þótt ég sé með hálfgerða flensu í augnablikinu.. Ég ætla að leyfa mér að vera væmin þessi jólin og njóta þeirra í botn. Ég er orðin hættuleg í umferðinni (ok, já, ég keypti mér helvítis bíl) því mér finnst svo gaman að horfa á jólaljósin í gluggunum. Þau lífga svo sannarlega uppá. Ég ætla sem minnst að kaupa, enda ekki úr miklu að moða á þessu heimili, en heimili mitt er opið gestum og gangandi vikuna fyrir jól og alltaf hægt að fá kaffi eða te og jafnvel eina fitusöru með!

|

8.12.06

Sörubakstur hafinn.

|