31.5.06

Brauðstritið heldur áfram.. (er einhver að grínast með þetta veður?).

Nú er ég að vinna að einu leyniprójekti, plana að þvo barnaföt á hverjum degi en geri aldrei, ætla að mála stofuna í dag, gólfið er að verða æðislegt í íbúðinni, barnateppið næstum tilbúið og ef einhver vill hanga hafi hann samband við mig hið snarasta.

xxxxTinsel in the Binsel

pæling: hefði ég vitað að einkunnatoppi mínum væri náð í 7. bekk í grunnskóla hefði ég kannski valið mér aðra námsleið...


|

17.5.06

Fröken Flensa

Jæja, það hlaut að koma að því.
Eins mikið heljarmenni og ég er að hreysti og gjörvigleika öllum, þá hef ég nú lent í klóm FLENSUNNAR í fyrsta sinn í áraraðir. Byrjaði hún að krauma í mínum gullbarka á sunnudagskvöldið. Á mánudagsmorgun var ég þó enn með réttu ráði og staulaðist fram úr og klæddi mig og keypti tölvu úr tölvuverinu í Odda. Svo kom ég heim og var þá af mér dregið. Ég reyndi að elda og skúra á milli þess sem ég fleygði mér máttlítil inn í rúm. Að lokum kom að því að ég lá einungis, með ógleði í maga og beinverki um allan líkama. Ég fór í bað, og kastaði upp (þó ekki í baðkarið..). Þá fór unnusti minn og keypti hitamæli og reyndist ég vera með 37.9 stiga hita. Eftir það lá ég bakk og lá við gráti af vanlíðan og sjálfsvorkunn. Tobba kom með paratabs handa mér og skánaði þá heldur líðanin. Leið svo og beið þangað til foreldrar mínir áttu leið um og tóku mig með sér í sveitina, enda ekkert vit að hafa mig eina og yfirgefna í tómri íbúð eins og ég er "blessunarlega á mig komin". Í gær byrjaði ég svo að gelta ('hósta'), þangað til að lá við rifbeinsbrotum og fórum við þá ásamt móður minni akandi til læknis sem skrifaði upp á sýklalyf. Hóstinn var alveg að gera út af við mig í gær og allt heimilisfólkið, þar sem pirringur minn bitnaði óspart á þeim.. Í morgun fór ég svo til Reykavíkur að skrifa undir afsalið af Hringbraut, svo nú erum við naglfastir eigendur íbúðar þeirrar. Ég fór líka í mæðraskoðun og barnið sparkar og snýr rétt og allt getur farið að gerast, þótt enn séu um 6 vikur í settan dag. Ljósmóðirin sagði að ég gæti orðið lengi að jafna mig á kvefinu því berkjurnar eru svo sveigjanlegar á meðgöngu vegna hormónabreytinga. Meira hvað allt þarf að verða eftirgefanlegt á þessari meðgöngu. Æðarnar og allt innaní manni bara verður eins og bráðið smér. Fór svo aftur heim í sveitina til foreldranna að láta hjúkra mér, því mér er ekki alveg batnað. Já vinir mínir, nú getur það bara farið upp á við!
Best að horfa á fyrstu skrefin.

|

13.5.06

EURO TJEURO

Ég auglýsi eftir Eurovisionpartýi!

|

10.5.06

Nescafé

Ah.
Gott er að vera til á vorin.
Þrátt fyrir alla hina illu ára sem hafa umkringt mig og áru mína undanfarið, skal þá með illu eða góðu burt reka, og hefur fyrsta skrefið verið tekið í þeim efnum með góðum árangri!
Það er líka mikið til af góðu fólki í þessum heimi, til dæmis hún Hildur föðursystir mín, sem sá ástæðu til að gefa mér andlitsbað á MECCA SPA á Hótel Sögu vegna góðrar frammistöðu minnar í hinni frábæru óperu Mærþöll. Það var alveg sérstaklega notalegt, ég lá á bekk umvafin stóru laki og ung stúlka skrúbbaði allan skít úr svitaholum og nuddaði svo á mér andlit og axlir í samtals 90 mínútur. Eftir þetta borgaði ég stórfé fyrir gelluklippingu á Hársögu, næstu dyr við. Þegar þetta trít hafði um garð gengið fór ég og söng á tónleikum og fékk mér ís um kvöldið, á meðan ektamaðurinn sparslaði og málaði heima fyrir.

Ég sé samt soldið eftir að hafa ekki farið í lögfræði.

|

5.5.06

Aldrei kemur bloggþörfin jafnsterkt upp og þegar síst er nauðsyn. T.d. núna, þegar munnlegt próf vofir yfir eftir nokkra klukkutíma. Ég er reyndar að hugsa um að reyna að fría mig undan þessu prófi og reyna að taka það á mánudaginn, sé þess nokkur vesæll kostur, vegna þess að lífið mitt snýst um ógeðslega leiðinlega fullorðinslega hluti þessa dagana sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér (og bið þá sem hafa pata af þeim að halda því einnig fyrir sig). Þessir hlutir hafa gjörsamlega sogið sig fasta við heilann á mér og ég á í mestu vandræðum með að gera nokkurn skapaðan hlut nema að hugsa um þá. Svoleiðis að ég er komin með magasár og króníska ógleði. Jesús minn, ég vildi að ég hefði aldrei orðið fullorðin.

*Læt mig dreyma um líf á annarri plánetu þar sem bankar og fasteignasalar eru ekki till.*

Ætla hins vegar að fara í námseinangrun upp í Mosfellsbæ um helgina - tel það eina vænlega kostinn í stöðunni.

|

4.5.06

Pirr.

Á þjóðarbókhlöðunni eru ég veit ekki hvað mörg borð. Á hvert einasta þeirra hefur í dag verið hrúgað bókum, blöðum, pennum og tölvum. Við helming þeirra situr ekki sála. Hvers á ég að gjalda? Hvar eru þessi hálfvitar sem þykjast vera að læra?
Blótsyrði blótsyrði blótsyrði.

|

Greiði

Ég vil biðja vini mína og velunnara, og þá lesendur síðu þessarar sem telja sig þurfa að hafa samband við mig í lífinu, að senda mér uppfærð netföng sín á toiletmouse@yahoo.com. Þá á ég við þau netföng sem í gildi eru hjá viðkomandi, gjarnan ekki bara hi-netföng hjá þeim sem eru við þann skítsæmilega skóla, heldur og einnig alternatífar, sem má notast við þegar viðkomandi útskrifast. Ég er orðin svo lifandis dauðþreytt á því að senda tölvupóst og fá FAILURE NOTICE.

Svo megiði líka leggja pening inn á bankareikninginn minn.

*FAILURE NOTICE*

Takk fyrir.

|