30.1.06

Hvað er það..

..sem hoppar og skoppar yfir heljarbrú, með mannabein í maganum og gettu nú!



SVAR: ÉG!

|

27.1.06

Áður en fleiri einkabílstjórar riðjast hér inn á mitt blogg og halda því fram að einkabíllinn sé ekki ofmetinn á Íslandi (hingað til 23% kjósenda) legg ég könnun þessa niður og bið ykkur vinsamlegast að taka þátt í þeirri næstu, en hún varðar málnotkunarverkefni mitt sem skila skal á þriðjudaginn. Þá hefur mér gjörla láðst að tilkynna um Mozarttónleika i kvöld. Sjá um þá líklega hér... Já maður minn.
Borðaði annars mjög indælan málsverð með Svanhvíti minni sem síðan sýndi mér fallega sænska mynd. Í fyrradag borðaði ég hins vegar mjög óindælan málsverð á þessum veitingastað. Pizzan var eins og brenndur smjörpappi á bragðið en reyndar var eftirrétturinn minn ágætur. Snorraeftirréttur var hins vegar bara plain vondur. Ég reyndi að kvarta yfir pizzunni en það varð bara til að skjóta þjónustustúlkunni skelk í bringu og ég endaði á að biðjast afsökunnar á eigin bragðskini.. Eftir það hélt ég að hún ætlaði aldrei að koma til að bjóða okkur eitthvað annað, við sem vorum ákveðin í að gefa eftirréttunum séns.. en hefðum ekki átt að gera það. Enívei, þetta var ágæt kvöldstund þrátt fyrir glataðan mat. Mæli með eplaköku og sjeik á Hressó.

|

26.1.06

Könnun

Jæja krakkar. Veriði svo væn að segja mér hvaða fall þið notið með sögninni að spá, í merkingunni að pæla. Rökstyðjið.

|

25.1.06

Fasteignabrask..

Síminn stoppar ekki vegna íbúðarinnar. Það er góðar fréttir vona eg. Hins vegar leiðist mér að standa í þessu braski. Áðan fékk ég mér ristað brauð með osti og um leið og ég beit í það greip mig áköf löngun í heitt kakó með rjóma. Það átti ég hins vegar ekki til.

|

21.1.06

Góðan daginn

Svaka partý í gær... skil ekki af hverju öll selibrittíin sem ég var búin að bjóða komu ekki.
Og svo eru Guðlaugi þökkuð fögur orð. Lesa!

|

20.1.06

Íbúð til sölu kostar eina tölu

Hverfisgata 104a kjallari Reykjavík er til sölu. Sjá nytt.is. Frábær fyrsta eign á góðum stað í hjarta borgarinnar. Og góður andi í íbúðinni (þó það sé stundum erfitt að fá hann aftur ofaní í flöskuna sína..).
Útgáfupartý Mímis í kvöld kl. 21 á Pravda. Og.. hægt að kaupa Mími í bóksölu stúdenta.
Þetta voru fréttir dagsins. Fréttir verða næst sagðar kl. 18.

|

17.1.06

Vanvirðing og hneisa.

Mozart jógúrt! Eruði ekki að grínast!
Eins og þeir hafi nokkuð viljað með hann hafa þegar hann reyndi sem best og mest að verða góðborgari í Vínarborg! En núna, já núna geta þeir étið hann innan úr súkkulaðikúlum, drukkið hann í líkjörsformi og tappað á jógúrtdósir!

|

16.1.06

Eru gangandi vegfarendur annars flokks borgarar?

Í hinni miklu snjóatíð sem geisar hefur um höfuðborgarsvæðið og víðar á landinu undanfarið hefur þeirri hugmynd æ oftar slegið niður í koll minn að nú ætti ég svei mér að fá mér gönguskíði til að ferðast um fótgangandi í þessari færð.
Ég er ekkert að grínast með þessa hugmynd, mér finnst það í alvörunni nokkuð freistandi að fara á gönguskíðum í vinnuna og upp í skóla.
Ef til vill hefði mér ekki dottið þetta í hug, ef ekki væri fyrir afburða lélega snjómokstursþjónustu Reykjavíkurborgar. Þeir keyra snjónum sem mest þeir mega af götunum, og hvert? -Jú, eimitt, á gangstéttarnar! Hvert einasta strætóskýli á götum borgarinnar er innilokað af snjó, þeir moka ekki einu sinni frá þeim! Ætli maður að stíga úr strætó mætir manni óvíða myndarlegur skafl, svo maður sér sér varla annað fært en að taka létt hástökk út úr vagninum og inn á gangstéttina. Sömu sögu er að segja um gangstéttarnar, sem eru að mér sýnist mokaðar kannski einu sinni, tvisvar í viku. Jafnharðan hefur snjórinn og drullan af götunum verið keyrð upp í þessa litlu troðninga, svo hinn fótgangandi má troða marvaða til að komast leiðar sinnar. Ég hef ekki annað heyrt en að fótgangandi vegfarendur borgi jafnháa skatta og þeir sem eiga bíla. Eiga þeir samt að eiga óhægara með að komast leiðar sinnar?

Þetta veltir upp annarri spurningu, um hvernig farið er með skattfé í landi þessu. Síðastliðin 5-10 ár hafa ótalmörg, gríðarleg umferðarmannvirki verið reist. Nægir að nefna slaufuna við Skeifuna, brúna í Breiðholti og svo hina skelfilegu Hringbrautarhringrás. Ég spyr, hvernig í ósköpunum ætlast stjórnvöld til að geta gert almenningssamgöngur nokkru sinni að raunhæfum kosti til frambúðar á meðan hlaðið er undir einkabílinn, og allt gert svo fleiri slíkir megi rúmast á höfuðborgarsvæðinu? Mér er hreinlega spurn. Og þar ofan á, lofa þeir bót og betrun á strætókerfinu og STYTTA þjónustutímann um klukkustund! Hvað er eiginlega í gangi? Þannig mátti ég ásamt unnusta mínum húka í um hálftíma í strætóskýli í MOSFELLSBÆ síðast liðið laugardagskvöld þar til mér varð ljóst að Strætó hafði enn einu sinni brugðist áralangri tryggð minni. Við tókum leigubíl heim. Og ekki einasta, auðvitað hækkaði verðskráin um áramótin, og hvert hæti um heilar fimm hundruð krónur! Reyndar bættist eitt skitið far við hið áður níu miða strætókort, en það greiðist dýru verði!

Mér er farið að líða eins og annars flokks borgara þar sem ég hef engan áhuga á að reka það sem Íslendingar virðast elska og virða meira en náunga sinn: einkabíl. Ég vil geta búið í samfélagi þar sem ég þarf ekki að skipuleggja líf mitt eftir því hvenær næsti strætó fer, ég vil geta treyst því að almenningssamgöngur geti borið mig og mína þangað sem ég þarf að fara, þegar ég þarf að fara þangað og til baka án sérstaks "undibúnings". Það er meira mál að taka strætó heldur en að fljúga til Köben! Þá ætlast ég líka til að borgin ryðji götur hinna gangandi vegfarenda en ekki bara þeirra keyrandi.

Þannig lýkur framboðsræðu minni. Góðar stundir.



|

11.1.06

Flottasta kerra í heimi!



Þetta er flottasta kerra í heimi. Þrjú hjól, kerrupoki og barnabílstóll inni í henni! Plús geðveikt smart taska. Og endurskinsmerki. For evening safety. Fest verða kaup á þessum herlegheitum í marsmánuði.

|

Pæling

Mig langar að flytja að Hala í Suðursveit.

|

10.1.06

Mí mí mí mí

Það er að bresta á!
Lyktin af honum..
áferðin..
þykktin..
snertingin..


MÍMIR ER Í PRENTUN!

|

6.1.06

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár kæru vinir, kunningjar og lesendur nær og fjær!
Þakka ykkur kærlega liðnar stundir á liðnu ári, og ég biðst innilegrar velvirðingar á að jólakortin hafi ekki borist á réttum tíma, eða yfir höfuð.. þau fóru með til Frans og allt, þessi sem ég ætlaði að póstleggja á flugvellinum...Vonandi gefst mér tækifæri til að afhenda þau í eigin persónu áður en langt um líður.
Hvað um það. Ég lenti um miðnætti í gærkvöldi (Iceland-NoStress nema hvað). Var svo lukkuleg að hitta Skjenstadsystkinin á Stanstead ásamt móður sinni og fékk far með þeim í bæinn. Nú er ég að hlusta á Yusef Lateef sem ég keypti í Fnac í Frakklandi, þar sem ég hef nú formlega sagt mig úr flautuhatarafélaginu og tekið flautuna í sátt sem áhugavert og skemmtilegt hljóðfæri. Keypti ég mér þennan flautudjassdisk því til áréttingar, en enn sem komið er heyrist bara í trompeti og englahorni ?... Flautan hlýtur að láta í sér heyra um síðir.

Frakklandsdvölin var annars skemmtileg, en erfið líka. Fjölskyldulífið er svo gjörólíkt því sem ég þekki, í Victors fjölskyldu tíðkast að rífast svolítið og æsa sig að minnsta kosti einu sinni ef ekki oftar yfir borðum.. Aðfangadagskvöld var alveg magnað, romm og jólatónlist frá Antillaeyjum í salsatempói og allir að dansa. Svo var sest að borðum seint og um síðir og á miðnætti æptu allir upp yfir sig GLEÐILEG JÓL! og rifu upp pakkana! Tengdamóðir mín gaf mér bók um Frönsku Guyana, en þar er Victor fæddur og uppalin til 10 mánaða aldurs..
Ég stóð vel við það sem ég sagði um að liggja uppi í sófa og gera ekkert. Las þeim mun meira, en var því miður ekki með prjónana með mér.. verð að drífa mig að kaupa garn og finna teppisuppskriftina sem Þórunn frænka gaf mér.

Ég er nú komin rúmar 15 vikur á leið en ekkert sést á mér ennþá! En ég ætti kannski ekki að kvarta neitt yfir því, og vera glöð yfir að hafa lagt af! Keypti fullt af óléttufötum í H&M. Og varð brjáluð þegar hver ólétt konan á fætur annarri fór fram fyrir röðina og tilkynnti um ástand sitt og hvort hún gæti nokkuð verið á undan!!!
Marjon vinkona mín hin hollenska kom og kíkti á mig í París og við héldum þá til í Steinuíbúð. Það var æðislega gaman að hitta hana og við erum að skipuleggja mikið leyniprójekt saman.

Í Frakklandi gerði ég auðvitað flest af því sem óléttum konum ber ekki að gera, borðaði gæsalifrarpaté, osta úr ógerilsneyddri mjólk, ostrur, og vín! Mamma mía. En ég fékk líka ógeðslega ælupest og ældi lifur og lungum í heilan dag og fram á kvöld, eða þar til kallað var á lækni, sem skrifaði upp á einhverjar magatöflur fyrir mig. Það var ömurlegur dagur! Í gær ældi ég svo í lestinni á leiðinni til Gare du Nord.. og var með hausverk og ógleði allan daginn og í flugvélinni. Held að þetta hafi verið flensueinkenni frekar en óléttu..
Nú er maður kominn heim í harkið og ekki annað að gera en að fara á næturvakt í kvöld þótt fúlt sé. Hlakka til að byrja í skólanum aftur og svona. Best að taka upp úr töskunum.

|