6.1.06

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár kæru vinir, kunningjar og lesendur nær og fjær!
Þakka ykkur kærlega liðnar stundir á liðnu ári, og ég biðst innilegrar velvirðingar á að jólakortin hafi ekki borist á réttum tíma, eða yfir höfuð.. þau fóru með til Frans og allt, þessi sem ég ætlaði að póstleggja á flugvellinum...Vonandi gefst mér tækifæri til að afhenda þau í eigin persónu áður en langt um líður.
Hvað um það. Ég lenti um miðnætti í gærkvöldi (Iceland-NoStress nema hvað). Var svo lukkuleg að hitta Skjenstadsystkinin á Stanstead ásamt móður sinni og fékk far með þeim í bæinn. Nú er ég að hlusta á Yusef Lateef sem ég keypti í Fnac í Frakklandi, þar sem ég hef nú formlega sagt mig úr flautuhatarafélaginu og tekið flautuna í sátt sem áhugavert og skemmtilegt hljóðfæri. Keypti ég mér þennan flautudjassdisk því til áréttingar, en enn sem komið er heyrist bara í trompeti og englahorni ?... Flautan hlýtur að láta í sér heyra um síðir.

Frakklandsdvölin var annars skemmtileg, en erfið líka. Fjölskyldulífið er svo gjörólíkt því sem ég þekki, í Victors fjölskyldu tíðkast að rífast svolítið og æsa sig að minnsta kosti einu sinni ef ekki oftar yfir borðum.. Aðfangadagskvöld var alveg magnað, romm og jólatónlist frá Antillaeyjum í salsatempói og allir að dansa. Svo var sest að borðum seint og um síðir og á miðnætti æptu allir upp yfir sig GLEÐILEG JÓL! og rifu upp pakkana! Tengdamóðir mín gaf mér bók um Frönsku Guyana, en þar er Victor fæddur og uppalin til 10 mánaða aldurs..
Ég stóð vel við það sem ég sagði um að liggja uppi í sófa og gera ekkert. Las þeim mun meira, en var því miður ekki með prjónana með mér.. verð að drífa mig að kaupa garn og finna teppisuppskriftina sem Þórunn frænka gaf mér.

Ég er nú komin rúmar 15 vikur á leið en ekkert sést á mér ennþá! En ég ætti kannski ekki að kvarta neitt yfir því, og vera glöð yfir að hafa lagt af! Keypti fullt af óléttufötum í H&M. Og varð brjáluð þegar hver ólétt konan á fætur annarri fór fram fyrir röðina og tilkynnti um ástand sitt og hvort hún gæti nokkuð verið á undan!!!
Marjon vinkona mín hin hollenska kom og kíkti á mig í París og við héldum þá til í Steinuíbúð. Það var æðislega gaman að hitta hana og við erum að skipuleggja mikið leyniprójekt saman.

Í Frakklandi gerði ég auðvitað flest af því sem óléttum konum ber ekki að gera, borðaði gæsalifrarpaté, osta úr ógerilsneyddri mjólk, ostrur, og vín! Mamma mía. En ég fékk líka ógeðslega ælupest og ældi lifur og lungum í heilan dag og fram á kvöld, eða þar til kallað var á lækni, sem skrifaði upp á einhverjar magatöflur fyrir mig. Það var ömurlegur dagur! Í gær ældi ég svo í lestinni á leiðinni til Gare du Nord.. og var með hausverk og ógleði allan daginn og í flugvélinni. Held að þetta hafi verið flensueinkenni frekar en óléttu..
Nú er maður kominn heim í harkið og ekki annað að gera en að fara á næturvakt í kvöld þótt fúlt sé. Hlakka til að byrja í skólanum aftur og svona. Best að taka upp úr töskunum.

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home