16.1.06

Eru gangandi vegfarendur annars flokks borgarar?

Í hinni miklu snjóatíð sem geisar hefur um höfuðborgarsvæðið og víðar á landinu undanfarið hefur þeirri hugmynd æ oftar slegið niður í koll minn að nú ætti ég svei mér að fá mér gönguskíði til að ferðast um fótgangandi í þessari færð.
Ég er ekkert að grínast með þessa hugmynd, mér finnst það í alvörunni nokkuð freistandi að fara á gönguskíðum í vinnuna og upp í skóla.
Ef til vill hefði mér ekki dottið þetta í hug, ef ekki væri fyrir afburða lélega snjómokstursþjónustu Reykjavíkurborgar. Þeir keyra snjónum sem mest þeir mega af götunum, og hvert? -Jú, eimitt, á gangstéttarnar! Hvert einasta strætóskýli á götum borgarinnar er innilokað af snjó, þeir moka ekki einu sinni frá þeim! Ætli maður að stíga úr strætó mætir manni óvíða myndarlegur skafl, svo maður sér sér varla annað fært en að taka létt hástökk út úr vagninum og inn á gangstéttina. Sömu sögu er að segja um gangstéttarnar, sem eru að mér sýnist mokaðar kannski einu sinni, tvisvar í viku. Jafnharðan hefur snjórinn og drullan af götunum verið keyrð upp í þessa litlu troðninga, svo hinn fótgangandi má troða marvaða til að komast leiðar sinnar. Ég hef ekki annað heyrt en að fótgangandi vegfarendur borgi jafnháa skatta og þeir sem eiga bíla. Eiga þeir samt að eiga óhægara með að komast leiðar sinnar?

Þetta veltir upp annarri spurningu, um hvernig farið er með skattfé í landi þessu. Síðastliðin 5-10 ár hafa ótalmörg, gríðarleg umferðarmannvirki verið reist. Nægir að nefna slaufuna við Skeifuna, brúna í Breiðholti og svo hina skelfilegu Hringbrautarhringrás. Ég spyr, hvernig í ósköpunum ætlast stjórnvöld til að geta gert almenningssamgöngur nokkru sinni að raunhæfum kosti til frambúðar á meðan hlaðið er undir einkabílinn, og allt gert svo fleiri slíkir megi rúmast á höfuðborgarsvæðinu? Mér er hreinlega spurn. Og þar ofan á, lofa þeir bót og betrun á strætókerfinu og STYTTA þjónustutímann um klukkustund! Hvað er eiginlega í gangi? Þannig mátti ég ásamt unnusta mínum húka í um hálftíma í strætóskýli í MOSFELLSBÆ síðast liðið laugardagskvöld þar til mér varð ljóst að Strætó hafði enn einu sinni brugðist áralangri tryggð minni. Við tókum leigubíl heim. Og ekki einasta, auðvitað hækkaði verðskráin um áramótin, og hvert hæti um heilar fimm hundruð krónur! Reyndar bættist eitt skitið far við hið áður níu miða strætókort, en það greiðist dýru verði!

Mér er farið að líða eins og annars flokks borgara þar sem ég hef engan áhuga á að reka það sem Íslendingar virðast elska og virða meira en náunga sinn: einkabíl. Ég vil geta búið í samfélagi þar sem ég þarf ekki að skipuleggja líf mitt eftir því hvenær næsti strætó fer, ég vil geta treyst því að almenningssamgöngur geti borið mig og mína þangað sem ég þarf að fara, þegar ég þarf að fara þangað og til baka án sérstaks "undibúnings". Það er meira mál að taka strætó heldur en að fljúga til Köben! Þá ætlast ég líka til að borgin ryðji götur hinna gangandi vegfarenda en ekki bara þeirra keyrandi.

Þannig lýkur framboðsræðu minni. Góðar stundir.



|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home