20.12.05

**** hvar er passinn minn!

|

17.12.05

Búin í prófum
nýfallinn snjórinn götunnar
bregður nú á leik.

Þreyttur morguninn
býður mér að leggjast við
hlið sína. Ó, takk!

|

13.12.05

Leikur

Skrifaðu nafnið þitt í kommentakerfið og...

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.
7. Ef þú lest þetta verður þú að setja þetta á bloggið þitt!

|

12.12.05

Crazyness in the bloghouse

Færsla á dag kemur skapinu í lag..
Þá er málsöguprófið búið halelúja og langt í næsta próf..það er á laugardaginn og nægir að hefja lestur fyrir það á miðvikudag samkvæmt mínum útreikningum. Nú er 10 dagar í utanför okkar Victors og gjörsamlega fullbókuð dagskrá þangað til. Í nótt og næstu nótt er ég að vinna, annað kvöld að syngja á tónótónleikum, á miðvikudag hefst próflestur aftur, á fimmtudaginn fósturrannsóknir, próflestur fram á laugardag, auk þess sem ég mun væntanlega pína bankann til að lána mér pening fyrir jólagjöfum og garni, því ég hafði hugsað mér að vera alveg passív í jólafríinu úti og liggja uppí sófa með prjóna. Þá taka við 4 næturvaktir, og inni í þeim pakka eru tvö gigg, spila með Heklunum fyrir austan á mánudagskvöldið 19. des og syngja í útskrift í stýrimannaskólanum þriðjudaginn 20.! Fæ samt borgað fyrir hvort tveggja. Ef ég verð ekki dauð eftir þetta megið þið gjarnan hjálpa mér að pakka niður á miðvikudaginn og frá og með þorláksmessu ætla ég ekki að gera NEITT í 2 vikur! Ahhh...

|

11.12.05

Prófles

Ef það er eitthvað í þessum heimi sem mér leiðist stórfenglega þá er það próflestur. Ég hef enga mótivasjón nema þá helst í 10 mínútur eftir að ég hef tekið mér 50 mínútna langa pásu. Svo hefur maður þrjá tíma á prófinu til að ausa úr sínum viskubrunnum í "stuttu máli" (sem er reyndar svæsnasta kennaralygi sem ég veit um, því minna sem maður skrifar því lægra fær maður!) og vera svo á bömmer í 2 daga yfir að hafa ekki skrifað "nóg" og að maður hefði nú átt að láta þetta og hitta fylgja með, en það datt manni ekki í hug í prófinu. Í tónlist er þessu allt öðru vísi farið. Maður undirbýr sig í 3 mánuði og hefur svo 10mínútur til að koma öllu frá sér! Ég er farin að halda að það eigi betur við mig en að koma dagsvinnu frá mér á 3 tímum.. sem er raunin, því ég hef eytt undanförnum dögum í allt annað en að lesa, t.d. vinna, skoða íbúðir, snaddast í Mími og reyna að halda sönsum.
Annars ætla ég að gera pizzu núna. Dúlli deig er að lyfta sig og ég er að hugsa um að skella á hann eitthvað af þessu rotnandi grænmeti í ísskápnum. Þangað til rifja ég upp þróun stuttra og langra einhljóða. Hvernig datt mér í hug að velja þetta fag!?

p.s. svo kvarta ég undan lélegri tíðni bloggfærslna sambloggara minna..

|

9.12.05

Hvað finnst ykkur um Afríka Sól eða Gíbraltar Baltasar?

|

8.12.05

Tilgangur lífsins

Ég er með lítið hrogn í maganum. Þann 29. júní mun það renna úr skauti mínu eins og lax úr greipum. Eftir það hlýt ég formlega titilinn móðir, og hef þar með uppfyllt líffræðilegt, og ef til vill einnig andlegt, hlutverk mitt hér á jörðu.

Amen.

P.s. ef einhver vill lána okkur 3 milljónir, endilega hafið samband!

|

2.12.05

Desember

Jæja. Ég var að hengja upp ofsalega huggulega jólaseríu. Annars eru skreytingar á heimili þessu í mínimalískum stíl, sem og heimili þetta almennt. Eitt postulínsjólatré í glugga og skrautepli sem ég keypti í LA VIDA í fyrra til jólagjafa.. en varð ekki meir úr verki en svo að tvö urðu afgangs. Einu sinni átti ég bara tvöþúsund kall (það var í alvöru aleigan mín), og eyddi honum í lítið og sætt jólatré sem var eitt eftir í jólatrjáasölunni við Landakot. Þetta tré setti ég í leka plastfötu og skreytti með hálsmenum, lyklum og drasli úr skartgripaskrínum og gott ef ég splæsti ekki á það seríu líka. Það var sérstaklega fínt og flott og yndislegur greniilmur sem fylgdi því.
Upplestrarfríið er einhverra hluta vegna troðfullt af vöktum.. Það verður því lesið frá 8-15 alla virka daga, og annars unnið. Annars er nú klukkan orðin hálftíu og ég er ekki byrjuð að lesa. Hm.. Skrýtið. Á eftir ætla ég að kaupa mandarínukassa í bjónus.

|