31.1.07

Rósagarður


Hef hafið ræktun á rósum sem ég hyggst planta í garðinn í sumar.

|

29.1.07

Einkennilegt

Mér þykja flestir af vinum mínum vera í einhvers konar sambúð eða sambandi. Samt er meirihluti lesenda samkvæmt skoðanakönnun hér til hægri singull. Ergó: Vinir mínir lesa ekki blogg þetta, heldur vandalausir einhleypingar.

|

23.1.07

Sund

Ég fór í sund í morgun, í fyrsta sinn í tæpa 7 mánuði. Synti svolítið og fór í gufuna og var öll hressari á eftir. Vesturbæjarlaugin er auðvitað sama kreðsan og flest allt hér í Vesturbænum, alveg makalaust. Rifjaði upp í huganum á meðan ég synti síðast þegar ég fór í sund. Það var eldsnemma að morgni 25. júní, ég hafði sofið illa enda öll undirlögð af óléttu, og dreif mig í pottinn í Vesturbæjarlauginni. Hitti þar fyrir einhverja karlakreðsu sem spjölluðu við mig og voru í viðbragðsstöðu að taka á móti barninu ef svo bæri undir. Ég varð vitni að hinu stórkostlega Müllersæfingaliði sem tekur sér stöðu þarna um sjöleytið á hverjum morgni en treysti mér nú ekki upp á bakann (eins og sjórekinn hvalur. Sjá meira um þessa sundferð hér). Síðan hef ég ekki farið í sund, fyrr en í morgun. Og mikið vatn er nú runnið til sjávar síðan, lítið barn skríðandi um gólf að æfa lokhljóðin sín og öng-. Mótar einnig fyrir s-i, en enginn orð enn..

|

19.1.07

BÍÓ

Ég fór ein í bíó áðan. Smá mæðra-holiday á meðan barn og maður sváfu. Fór einmitt á myndina The Holiday, en fyrir jól lét ég mig sérstaklega dreyma um að fara á þessa mynd.
Hún reyndist hins vegar vera frekar langt undir væntingum, enda kannski ekki við öðru að búast þegar um ameríska kommörsjalmynd er að ræða. Þótt Bandaríkjamenn reyni að hressa uppá myndirnar sínar með breskum leikurum og nokkrum skotum inni í breskum híbýlum, fullum af leirtaui eins og fæst í Salti og pipar nær það ekki að fylla upp í "tómið". Svo voru nokkur allt of löng skot af engu, Cameron Diaz að glápa framan í einhvern aumingjans hund og Kate Winslet að hoppa um eins og móðursjúkur geðhvarfasjúklingur í stóra einbýlinu hennar Cameronar. Svo voru auðvitað venjubundnu skilaboðin um hryðjuverkavá í heiminum og Gyðingum gert hátt undir höfði (ath. ég er alls ekkert á móti Gyðingum. En í Bandaríkjunum eru þeir svo valdamiklir og hvarvetna endurspegla þeir (eða eru látnir endurspegla) menningu og ríkidæmi. Síðan viðurkenna Bandaríkin ekki tilvist Palestínu og selja vopn til Ísrels..Alls staðar eru öfgar) Svo voru þarna 2 eða 3 svört andlit, svona til að fylla upp í kvótann. Engin svört andlit í Bretlandi hins vegar.
Jæja, svona er nú skondinn veruleikinn í kvikmyndunum. Annars var Jack Black auðvitað frábær eins og alltaf (ef ég hefði ekki gifst V hefði ég gifst honum) og hinir leikararnir rosalega sætir og Eli Wallach sem Arthur Abbot, gamli Hollywood-handritshöfundurinn mjög góður. Annars frekar þunnur og of oft ósannfærandi þrettándi.

|

16.1.07

Canibalism


Alveg hreint með ólíkindum hvað eitt barn getur sogið brjóst af mikilli áfergju. Það er alveg kostulegt að sjá þegar dóttir mín stingur sér á brjóstið eins og ránfugl á hlaupandi bráð. Hún hefur nú náð slíkum félagslegum þroska að brjóstið á yfirleitt ekki athygli hennar lengur en ca hálfa til eina mínútu í einu og þá slítur hún sig frá, mjög lekkert. En ekki líður á löngu áður en leitin að týndu geirvörtunni hefst á ný og litla andlitið borar sig ofaní brjóstið með allt að því grimmilegum hljóðum!
Jæja, þetta var nú ekki fyrir viðkvæma og væri kannski betur óbirt/sagt látið.

En ég hef nú tekið mig til og er búin að mæta í háskólann einu sinni, í bókmenntasögu sem mér líst mjög vel á. Held að egypsk erótíkurljóð, Gilgames og Kóraninn - best off henti vel með barnastússi og óperu.
Bíllinn er ennþá bil svo við tökum strætó í sund á eftir.
Jana kann að fara upp á hnén en er svo föst í þeirri skriðstellingu. Farin að hjala í annarri tóntegund, einbeitir sér nú einkum að ein- og tvístrikaðri áttund. Svo eru tennur tvær í neðri góm á fullu upp úr tannholdi. Fékk tannbursta í gær. En ég smurði aftur á móti á mig tankremi.

Bráðum kemur betri tíð,
með blóm í haga.

|

12.1.07

Hless.

Ósköp eru að sjá veðrið úti. Og bíll bilaður.

|

9.1.07

Chagga Chagga

Mig langar að baka súkkulaðiköku um helgina og bjóða ónefndri föðursysturdóttur í heimsókn ásamt kærasta.
Mig langar óheyrilega að mála eldhúsið.
Mig langar í pening.
Mig langar í aðeins minna frost svo hægt sé að pakka barninu út í kerruna og láta hana sofa við indælan umferðarnið.
Mig langar í nýju gluggana sem okkur var lofið fyrir ca. 9 mánuðum síðan.
Mig langar í skýrari framtíðarsýn.
Mig langar að endurheimta alla listrænu hæfileikana mína.
Mig langar í bíó.
Mig langar að standa mig vel.
Mig langar að botna aðeins í þessu öllu saman.




DJÓK!

|

8.1.07

Fyrir foreldra...

Fyrir áhugasama foreldra sem leggja leið sína hér um þá byrja foreldramorgnarnir í Áskirkju aftur á fimmtudaginn, kl 10 - 12 eins og venjulega :)

|

5.1.07

Sjá, dagar koma eða Örlögin snúast mér í hag?

Gleðilegt gleðiár!

Jarðálfarnir sem stálu öllu steini léttara skiluðu því sem þeir stálu fyrir rest. Um var að ræða leikhúsmiða, skattkort, bíllykil og mikilvæga lyklakippu sem veitir völd að ýmsum heimilum, öðrum en mínu eigin. Gripir þessir skiluðu sér nánast allir á sömu mínútu á þá staði þar sem mest hafði verið leitað. Alveg ótrúlegir, jarðálfarnir.
Í gær horfði ég á Kastljósið og fannst ég vera að horfa á endursýningu á Áramótaskaupinu: "Nú ert þú stærsti Íslendingurinn sem ferð með hlutverk í myndinni Fags of our Fathers..."

|