24.4.06

Stutt

Ég er komin í ruglið.
Við sjáumst 8. maí.
(Þann dag ætla ég einmitt að fá mér permanett, borða fullt af mat og súkkulaðiköku, kaupa 5 baðbombur sem gera mig ómótstæðilega, baða mig í þeim og byrja svo að undirbúa fæðingu frelsarans.)

|

14.4.06

Guði sé lof fyrir 7. sinfóníu Beethovens.

|

13.4.06

Af nýjum högum

Vér erum flutt á nýja staðinn og sofum þar innan um hálfmálaða veggi og
sparsl í sprungum. Þar sem engin er eldavélin enn sem komið er höfum vér
hafið nýtt hráfæðismataræði sem stendur saman aðallega af brauði og osti
ásamt með tei. Og eplum. Það besta er tvímælalaust baðkarið, en í það er
hægt að setja nóg af heitu vatni og freyðandi sápu og baða sig, sem kallað
er, jafnvel tveir í einu. Ísskápur hefur oss áskotnast, stór og góður, og
var í eigu afa míns heitins og sé blessuð hans minning að eilífu amen. Því
getum vér nú fryst brauð til nokkurra vikna í senn.
Geymslur vorar höfum vér fyllt af búslóð vorri og er meiri kaós en tárum
taki, kvíði ég því einna mest að grafa upp hefti þau, sem í Goðsögum,
hetjum og dulúð eru kennd, og rýna í texta fyrir próf og ritsmíð. Hjálpi
oss allir helgir.
Rafvirkja höfum vér virkjað til rafdráttar, og hefur því verið dregið í
rafmagn í okkar annars gömlu og guggnu íbúð. Birti við það mjög.
Símtenging og net- hefur enn eigi farið fram en verður tilkynnt um það við
fyrsta tækifæri. Þangað til verða netskrif og -skoð takmörkuð, en gsm sími
minn virkur þegar hann er ekki batteríislaus, eins og núna.

Áætlun:
Get ekki áætlað áætlun.

P.s. nú eru í sjónvarpinu tónleikar í Langholtskirkju þar sem orgelið er
látið líta út fyrir að vera upplýstur drakúla kastali, kórinn ruggar sér í lendunum sem æstur og graður munkalýður úr Carmina Burana. Ja hérna hér.

|

8.4.06

Mærþöll


Ný íslensk ópera

Æfingar eru hafnar á óperunni Mærþöll í flutningi nemanda úr Tónlistarskólanum í Reykjavík. Höfundur tónlistar og texta er Þórunn Guðmundsdóttir, kennari við skólann, en hún hefur getið sér gott orð fyrir skrif sýn fyrir leikfélagið Hugleik. Meðal verka hennar eru leikritið Kleinur og söngleikurinn Kolrassa. Mærþöll byggir á gömlu íslensku ævintýri með prinsi, álfkonum og álögum. Aðal persónan er hertogadóttir sem grætur gulli í tára stað en það færir henni ekki endilega gæfu. Þátttakendur eru ellefu söngvarar og nítján manna hljómsveit, allt nemendur í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Leikstjóri er Hrefna Friðriksdóttir, söngstjóri Þórunn Guðmundsdóttir og stjórnandi hljómsveitar Kjartan Óskarsson.

Sýningar á Mærþöll verða einungis tvær, laugard. 22. apríl og sunnud. 23. apríl kl. 20:00 í Íslensku óperunni.
Áhugasamir eru hvattir til að panta miða sem fyrst. Hægt er að panta miða hjá Þátttakendum í sýningunni, með því að senda tölvupóst á netfangið drtota@ismennt.is og hjá Íslenskunni óperunni frá og með 18. apríl í síma 511-4200 eða á opera.is.
 Posted by Picasa

|

3.4.06

Málning í hári

Ég verð að segja að það olli mér hálfgerðum vonbrigðum hversu fáir/fáar tjáðu sig um fegurðarvandann. Sýnir kannski bara hvað ég er hégómleg og á lágu plani og allir vinir mínir og aðrir lesendur gáfaðir og ómeðvitaðir um útlitið...
Í dag er ég búin að borða heil ósköp af súkkulaði yfir málningunum, núna er eitt herbergi orðið alveg svakalega fínt. Svo byrjaði ég að þrífa eldhúsinnréttinguna, hún er nú meiri hörmungin. Annars verð ég að fara í beautysturtu núna því það er Mærþallaræfing og Don Freyzo kemur að sækja mig kl rúmlega 7 stundvíslega og ég er með málningarstrípur í hárinu.

Daim.

|