13.4.06

Af nýjum högum

Vér erum flutt á nýja staðinn og sofum þar innan um hálfmálaða veggi og
sparsl í sprungum. Þar sem engin er eldavélin enn sem komið er höfum vér
hafið nýtt hráfæðismataræði sem stendur saman aðallega af brauði og osti
ásamt með tei. Og eplum. Það besta er tvímælalaust baðkarið, en í það er
hægt að setja nóg af heitu vatni og freyðandi sápu og baða sig, sem kallað
er, jafnvel tveir í einu. Ísskápur hefur oss áskotnast, stór og góður, og
var í eigu afa míns heitins og sé blessuð hans minning að eilífu amen. Því
getum vér nú fryst brauð til nokkurra vikna í senn.
Geymslur vorar höfum vér fyllt af búslóð vorri og er meiri kaós en tárum
taki, kvíði ég því einna mest að grafa upp hefti þau, sem í Goðsögum,
hetjum og dulúð eru kennd, og rýna í texta fyrir próf og ritsmíð. Hjálpi
oss allir helgir.
Rafvirkja höfum vér virkjað til rafdráttar, og hefur því verið dregið í
rafmagn í okkar annars gömlu og guggnu íbúð. Birti við það mjög.
Símtenging og net- hefur enn eigi farið fram en verður tilkynnt um það við
fyrsta tækifæri. Þangað til verða netskrif og -skoð takmörkuð, en gsm sími
minn virkur þegar hann er ekki batteríislaus, eins og núna.

Áætlun:
Get ekki áætlað áætlun.

P.s. nú eru í sjónvarpinu tónleikar í Langholtskirkju þar sem orgelið er
látið líta út fyrir að vera upplýstur drakúla kastali, kórinn ruggar sér í lendunum sem æstur og graður munkalýður úr Carmina Burana. Ja hérna hér.

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home