22.3.06

Robi wy mówicie język polski?

Í gær varð ég fyrir skemmtilegri reynslu hér í borg.
Ég var stödd við Hlemm og er ekki nema leið 2 þar á sama tíma. Þar sem ég var á leið upp í Tónó og talsvert á eftir áætlun eins og mín er gjarnan vísa, vatt ég mér að vagninum og spurði hvort það væri langt í að hann færi, ég ætlaði nefninlega ekki að fara að bíða eftir að vagninn leggði af stað ef svo bæri undir.. Þá bar svo við að bílstjórinn skildi ekki stakt orð af því sem ég sagði, en fór samstundis að tala pólsku, og ég held að hann hafi spurt hvort ég talaði pólsku. Kom þá vel á vondan því ég brá fyrir mig tékkneskunni, (sem er einmitt af vesturgrein slavneskra mála, eins og pólska) samlanda hans sem þarna sat til mikillar kátínu, og spurði ég hann eftir hve margar mínútur hann færi. Hann sagðist vera að leggja í hann og með það ók hann af stað og ég fékk mér sæti. Þegar ég stóð upp til að hringja bjöllunni gaf hann mér merki um að koma og við spjölluðum saman. Ég skildi nú ekki alveg allt sem hann sagði, en alla vega spurði hann mig af hverju ég talaði tékknesku og hvort ég hefði búið í Prag. Svo sagði hann eitthvað á þá leið að ég myndi læra pólsku hérna. Svo spurði hann hvort ég færi út á næstu stöð og þegar ég játti sagði hann það synd og skömm (Škoda). Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt og upplífgandi.
Í morgunsárið er ég svo búin að skipta um peru og er að fara að pakka niður...

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home