9.3.06

Matur

Það er langt síðan ég hef bloggað um eitthvað almennilegt. Langir pistlar eru nú sjaldséðir, en voru áður fyrr daglegt brauð (sjá íslenskt mál að fornu). En nú finn ég mig knúna til að skrifa nokkuð langan pistil um mataræði mitt og mat almennt, á meðan ég bíð eftr að mannsefnið drattist fram úr og klári morgunmatinn sinn. Sem er múslí með mjólk. Við eigum tveggja ára afmæli í dag.
Þegar ég fór að búa ein, í kringum árið 2000, fór ég ósjálfrátt að borða minna af kjöti. Sömuleiðis keypti ég nær aldrei mjólk, því hún súrnaði bara í mínum litla og einmanalega ísskáp. Hins vegar held ég að ég hafi um það bil alltaf keypt það sama í matinn, og á tímabili eldaði ég ekkert nema spaghettí og einhvers konar tómatsósur sem innihéldu gjarnan mikið af rjómaosti og/eða rjóma til bragðbótar. Jafnan var laukur uppistaða, ásamt sveppum.. Eftir sumardvöl á Ítalíu komst ég að því að Ítalir nota ólívuolíu eins og við mjólk og það var ekki hægt að komast af í eldhúsinu án hennar. Pastasmekkur minn vænkaðist við þessa dvöl og varð sófistikeraði ef svo má segja. Ég komst að því að spagettí þurfti ekki að vera löðrandi í niðursoðnum tómötum, heldur væri súkkíni kannski bara nóg. Ég lærði að búa til pasta og það var æði.. hlakka til að rifja þá kunnáttu upp einhvern daginn og nota til þess heimanmund Victors, pastadeigsútfletjara!
Í Prag kynntist ég forhertum grænmetisætum, sem aldrei létu neitt inn fyrir sínar varir sem hafði einhvern tímann tengst einhverju sem dró andann, þar með talin mjólk og egg. Í Prag dró verulegu úr mjólkurvöruneyslu minni og ég hætti á tímabili að nota annað en sojamjólk út í kaffið! Sömuleiðis snarhætti ég að borða kjöt, en það var einnig vegna þess að ég hafði einhvern veginn ekki lyst á því. Fisk langaði mig heldur ekki í, þarna inni í miðju landi sem hvergi hafði aðgang að sjó. Þegar ég kom heim um sumarið ofbauð mér svo neyslumunstur fjölskyldu minnar að þeim blöskraði! Mér fannst kjöt hreinlega viðbjóðslegt, og ef ég lét það inn fyrir mínar varir fannst mér ég vera að borða mannakjöt!! Þá hafði kaffineysla mín einnig minnkað og vikið fyrir teþambi, og mér fannst foreldrar mínir stanslaust vera að drekka kaffi.. Ég byrjaði þó að borða kjöt aftur, í litlu magni þó, enda dottin úr hinu heilnæma, vegitaríanska samhengi.. Í Danmörku hóf ég aftur kjötát, enda annað mjög erfitt í því landi. Samt sem áður hefur kjöt aldrei verið í neinu uppáhaldi, ég kemst mjög vel af án þess og borða það meira svona af félagslegum ástæðum, þegar ég vil ekki vera "leiðinleg". Líður mun betur án þess..
Ég hef alltaf talið mig ágætan kokk, en inn á milli á ég hörmuleg skeið við eldavélina þar sem allt sem ég elda mistekst og er vont. Á slíkum skeiðum hef ég t.a.m. boðið vinum upp á ósoðnar baunir og bragðlausan hrylling. Nú er ég nýstigin út úr einu slíku stigi, sem hefur varað frá því í sumar, og galdra fram hverja dýrindismáltíðina á fætur annarri. Sömuleiðis hef ég reynt að kaupa ekki alltaf "það sama" og eru sellerí, rækjur, þistilhjörtu, avokadó og lime helstu nýjungarnar í mínu eldhúsi og virka mjög vel... Sambýlismaðurinn er algjör grænmetisæta og borðar aldrei kjöt, nema hjá foreldrum mínum þar sem hann veit hvaðan það kemur. Hann borðar í staðinn mjög mikið af osti og mjólkurvörum, en ég borða ekki eins mikið af þeim, þar sem ég á það til að verða veik ef ég borða of mikið af því! (mjólkurvörur auka slímmyndun..)
Hér kemur einn heilsudrykkur:
Stórt glas fullt af köldu vatni úr krananum.
Lime
Skerið limeið í báta og kreistið safann út í vatnið (eða hafið aðrar aðferðir við að ná safanum úr ávextinum!)
Drekkið!
Mjög c-vítamínríkt og gott fyrir ófrískar konur með lélegt tannhold og afrifur í munnvikum!!!

En jæja, þá er kominn tími til að hlúa að framtíðarheimilinu. Vonandi nennti einhver að lesa þetta allt!

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home