Vegna fjölda áskoranna mun ég nú rita almennilega færslu.
Eins og fram hefur komið fór ég að sjá Sweeney Todd á föstudagskvöldið. Með í för var
Tótfríður Harðdal, en hún hefur áður skrifað gagnrýni um sýninguna sem ég er búin að lesa, og því hætt við að mín lýsing verði nokkuð lituð af hennar reynslu, þó reynt verði eftir fremsta megni að komast hjá því.
Nú.
Undirrituð fékk lánuð föt hjá Rut frænku sinni af þessu tilefni og var mjög fín. Þegar tótfríður hafði mætt og við drukkið rauðvín í 10 mínútur lögðum við af stað fótgangandi. Í óperunni var margt um mann og konur af mörgu kyni og settumst við í 8. bekk til vinstri.
Til að gera langa sögu stutta skemmti ég mér mjög vel. Lóett hafði reyndar undarlega raddbeitingu, svolítið eins og Sigga beinteins í óperufíling. Anthony (Marías) flögraði inn á sviðið eins og fiðrildi úr pampersauglýsingu, með hvítar tennur og sóldökkt andlit, og var þetta gervi hans mjög í stíl við rödd hans og slöngulokka, sem stungu einmitt mjög í stúf við alla hina í sýningunni. Flestir voru svartklæddir og fölir af óloftinu í London. (ég hef einmitt snýtt svörtu eftir eftirmiðdegi í þeim bæ)
Hann hefur ósköp sæta rödd og fannst gaman að standa á sviði og syngja kyssusmst....þó var ekki augljóst hvers konar ást hann bar í brjósti til Jóönnu, hvort það var í raun djúp og hrein ást þess sem hyggst frelsa, eða bara gredda eftir að hafa verið lengi á sjónum.
Aðrir söngvarar stóðu sig allir með prýði, Hulda og Sesselja voru frábærar, sérstaklega var Sesselja dramatísk og brjóstumkennanleg á sama tíma og hún var ógeðfelld og brjáluð. Davíð og Þorbjörn voru gott tím sem dómarinn og aðstoðarmaður hans. Þorbjörn var sérstaklega fyndinn týpa.
Örn Arnarson fór á kostum, sem fleðulegi ,,útlendingurinn". Gervi hans var bráðfyndið og leikur hans og söngur. Ég myndi vilja sjá Örn oftar í óperuhlutverkum...
Ágúst var náttúrulega mjög flottur í titilhlutverkinu, og bar það alveg uppi.
Þó að oft næðist mjög svona hryllileg stemmning á sviðinu, t.d í kóratriðunum hefði mátt auka enn þá meir á spennuna og dramatíkina, t.d. í lokaatriðinu. En ég skemmti mér vel.