19.11.04

Frostaveturinn mikli

Frostaveturinn mikli er skollinn á. Göngulag hinna fótgangandi líkist nú mest göngulagi kínverskra stúlkna fram á 19. öld, þegar þær höfðu reirða fætur. Er hálkunni um að kenna, að gangandi fara sér löturhægt og stíga stutt skref. Þá er ökulag mannanna ekki betra, og umferðin mikil. Sé maður ekki í þann veginn að verða fyrir strætisvagni eða snjóruðningstæki á fullri ferð, má búast við að flugvél lendi ofan á höfði manns.
Tjörnin er svoleiðis gallfrosin (er það til?) að halda mætti að hún hefði aldrei verið vatn, heldur jökulbreiða. Endurnar sanna þó að þarna muni vatn vera, því þær keppast sem mest þær mega við að halda sínum parti, þeim er liggur að Iðnó, ófrosnum. Ekki skil ég hvað heldur í þær. Svo sannarlega myndi ég frekar fljúga til Afríku, hvað þá ef þess gæfist kostur á þeim lágu fluggjöldum sem fuglar eru krafðir um.
Kaupmennirnir keppast við að skreyta búðargluggana og seríurnar eru farnar að skína sem stjörnuhiminn við Laugarveginn. Það er eins og þeir noti snjóinn til að minna á jólin, og allt fer í fullan gang. Maltölið, jólasmákökurnar og dönsku piparkökurnar ryðjast eins og hersveit inn í verslanirnar. Og meira segja er greni til sölu!
Ég er svo aldeilis bit. En nú munu brátt af mér kala fingur.

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home