23.11.04

Hlákan mikla

Hlákan mikla hefur skollið á með þeim afleiðingum að grýlukertin koma hlaupandi oní hausinn á manni ef maður vogar sér út úr húsi. En vitaskuld er það varla vogandi. Þó er hrímið yfir blessaðri tjörninni svo gallfreðið enn þá að í morgun þegar mér var að vanda gengið þar fram hjá voru þar menn í fótbolta. Ekki var að sjá annað en að tjörnin þyldi þetta vel.
Ég hef verið dugleg að fara í bíó undanfarið. Á föstudaginn fór ég til dæmis ein á kvikmyndahátíð og sá myndina um tregafyllstu tónlist heims. Það var nokkuð góð mynd. En svolítið erfið áhorfs fannst mér. Myndin er svarthvít og gerð eins og hún sé búin til á árunum sem hún gerist, sem sagt í kreppunni 1930 og eitthvað. Tónlistarkeppnir eru alltaf jafnfyndið fyrirbæri...En þetta var mikil skemmtun og heilmikið ævintýri. Mest langar mig að sjá Jargo, og svo ef til vill Birgittu Jóns, en hún er auðvitað skyldusjón fyrir alla sem hafa verið eða eru einhleypir.. Svo fór ég á Bubbamyndina, og horfði á Bubba tala um sitt ,,daglega fólk" og fleira í þeim dúr. Það var mjög áhugavert fyrir mig sem íslenskunema..
Ég er nú líka búin að fara á Thanksgiving í Hveragerði og eta kalkún, þótt ég gefi mig nú almennt út fyrir að vera grænmetisæta.. eða vegitarianka..
Þar sem ég sat til borðs varð mér handleikið um háls minn og fann þar æxli eitt mikið að mér fannst. Ég kallaði móður mína þegar í stað til skoðunar en ekkert kom út úr því. Daginn eftir vorum við svo heppnar að vera boðnar í barnaafmæli þar sem læknir var staddur og tilkynnti að um bólginn eitil væri að ræða. Ég er semsagt með bólginn eitil. En mér finnst í dag eins og hann hafi heldur bætt við sig að ummáli heldur en hitt. (Vonandi er þetta ekki krabbameinsæxli. Djók.)

Jæja.. hvernig væri að slá upp partý með þessum fjörugu salsapólífónísku hringingum sem bregða manni í brún hvar sem maður er. Mig langar alltaf mest að fara að dansa og dilla mér þegar ég lendi í þessu. Hvað er líka málið með gsm síma og fólk að blaðra og blaðra SVONA HÁTT yfir EINHVERJUM EINKUNNUM OG BLA BLA OG JÁ VAR ÞAÐ!!!!! HAHAHAHAHAHAHAHA!!!!BÍDDU::í tövluverinu! Á ekki að virða vinnufrið? Ha!
Kræst. ÉG ætla að flytja héðan við fyrsta tækifæri.

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home