Lífið
Ja hérna er ekki lífið skrýtið. Allt í einu spretta upp nýstropuð egg útum allt í ungum legum, tútna og bólgna út í frjósemi sinni þar til einn góðan veðurdag þrýstist út heill líkami af manneskju! Já þetta er aldeilis stórkostlegt þetta móðurlíf. Að það skuli geta séð um heilt líf í hva, 280 daga, fætt og nært, það er óviðjafnanlegt.
Ég segi það ekki, ég er orðin svolítið þreytt frjósemisgyðja með mitt Bringspalateygða leg og spörk hingað og þangað daginn út og inn, bakverki og grindargliðnun og brjóstsviða á kvöldin. Ég hef þó náð eiginlega að fullu minni fyrri heilsu, laus við kinnholubólgur og niðurgang og hef því öðlast matar og drykkjarlist á ný sem er mjög gott. En þið trúið ekki hvað ég hlakka til eftir laugardaginn að geta prjónað eins og brjálæðingur án samviskubits, farið í jóga og endurnýjað fæðingarsjálfstraustið, sinnt barninu mínu í aðlögun á leikskólanum, lagt mig ca 5 sinnum á dag, farið jafnvel í sund, þvegið barnafötin og komið þeim fyrir, og undirbúið heimilið og sjálfa mig og barnið mitt svo langt sem það nær (haha) fyrir þessa miklu breytingu í lífi okkar allra. Ég var líka að fatta í dag að það eru 3 vikur í 37 vikna meðgöngu sem er einmitt meðaltalsmeðganga tvíbura...
Vinir mínir, látið ykkur ekki antísósjalískt líferni mitt fara í taugarnar á ykkur, ég get bara ekki farið mikið út úr húsi, literarí vegna líkamslegs álags. Hringið í mig eða bankið, stundum er ég í stuði, stundum ekki! Þetta er bara allt saman dulítið sérstakt.
Ég stefni þó ótrauð á að heimsækja nýbornar húsfreyjur sem fyrst í næstu viku, enda þarf ég að rifja upp nýburahandtökin... og í nýstropuðum legum vil ég einnig heyra sem fyrst!
|