13.11.07

Ólétta

Varúð: Ekki fyrir þá sem nenna ekki að lesa um það að vera óléttur..


Jæja. Nú eru tvíburarnir orðnir 23ja vikna og tveggja daga. Skörp skil hafa orðið á líkamlegri líðan. Mér finnst mjaðmagrindin vera risastór bastkarfa, full af ávöxtum (leg sem inniheldur 2 börn (um 600gr hvort) og 2 fylgjur), og líðanin eftir því. Myndi helst vilja hanga á stóra gymnastíska boltanum mínum bara allan daginn.. Finnst ég vera eins og lítil en stækkandi steypireyður, kúlan framstæð og börnin sparka í allar áttir og flest líffæri, allan hringinn! Ég er alltaf svöng og þreytt. Og enn eru eftir 3 vikur í 3. þriðjunginn. Á þessum tíma fara konur í Danmörku í fæðingarorlof! Ég ætla að reyna að fara í orlof eftir áramót, en enn eru nokkrar pligtir sem standa skal, t.d. framhaldsstigið mikla 26. nóv, tónleikar 2. des, ritgerð og próf.. Ég ætla að reyna að flýta prófinu sem ég fer í til 12. desember, þá mun ég væntanlega eiga eitthvað eftir af ritgerðinni minni en svo vona ég að ég geti notið jólanna í huggulegheitum og hvílt mig fyrir átökin (settur dagur 9. mars).
Morgnarnir eru þaktir sinkkremi og hafragraut, maður þakkar fyrir að komast þokkalegur út úr húsi á morgnana. Jans er ánægð hjá dagmömmunni. Hún er komin í sérherbergi og sefur meira að segja stundum þar inni, einu sinni heila nótt! Hún er farin að leika sér í mömmó af miklum móð og innlifun, tel ég það góðan fyrirboða. Hún er annars yndislegt barn og skemmtilegt, eins og hún á kyn til :)
Af óléttu er ekki fleira að frétta að sinni, nema ég er með blóð og slím og legvatn á heilanum.. Alltaf til í kvöldgesti, sérstaklega ef þeir taka með sér súkkulaði..

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home