17.11.06

Móðurlífsraunir

Ég er orðin svo heiladauð af móðurhlutverkinu að við vinkonu mína sem kom til landsins til að sigra píanókeppni og vildi leika við mig flókna orðaleiki gat ég ekkert annað sagt en :,,Ég er byrjuð í leikfimi" og brosað eins og fábjáni út í annað.
Eins og ég var nú búin að hlakka til að eiga "akademískt kombakk" á 60 ára afmæli Mímis í kveld, eða fara á Sykurmolana, kom það upp úr dúrnum í gærkveldi að ekki einasta fæ ég ei pössun fyrir mitt eigið barn heldur bættist önnur anganlóra við sem ég þarf að gæta. Þar með fóru þeir draumar um flört við gamla skólafélaga og jafnvel kennara lönd og strönd. Best ég æfi mig í að vera Mary Poppins í dag svo ég geti verið skemmtileg við þær báðar í kvöld.
Hins vegar fór ég í leikfimi (nema hvað!) í morgunsárið og þegar ég var búin að Hreyfa mig og fara í sturtu og blása á mér hárið og bera á mig dýrt bodylotion fylltist ég svo mikilli gleði yfir minni litlu tilveru að ég fór og fékk mér ávaxtabúst á hreyfingarbarnum og var glöð í bragði alla leiðina heim. Hins vegar er veðrið þesslegt (eitt orð?!) að mig langar helst í Kringluna og kaupa mér húfu og jafnvel hitaeiningaríkan kaffibolla en hollt meðlæti. Svona hef ég nú sérhæfðar óskir.

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home