26.8.04

Flugur

Á þessum árstíma virðast saklausar flugur langlíklegastar til að valda fólki skaða. Ekki einungis grípur gríðarleg drápshvöt um sig hjá hinu rólyndasta fólki heldur gæti mörgum farið að líða illa sakir kvíða. Fólk heldur því fram að setið sé um líf þess, ekki einungis nágranninn með flugnaspaðann, heldur situr flugann með herafla sinn fyrir þér, bíður þess að þú hreyfir þig svo hún geti hafið árásir. Árásir sem þessar eiga sér yfirleitt stað þegar þú liggur í fleti þínu. Kannski rumskarðu við þrusk eða bank, en suðið berst þér ekki strax til eyrna. Langalgengast er að einungis ein flugi ráðist að þér í svefni, sé um húsflugur að ræða. Flugan suðar þá gjarna við eyra, munn og augu, flækir sig í hári og veldur almennum ama og mæðu.
Ekki einungis hefur flugan gaman af þessari iðju. Flugan er hinn mesti skítberi og unir sér lengi við að sveima í og yfir hvers kyns matarílátum. Skóflar hún í sig hvaða ögn af "mat" sem hún nær í og gildir einu hvort um sé að ræða smjöglíkisskán eða flösu.
Augljóst er að flugan er hinn mesti skaðvaldur, en með árásargirni sinni, græðgi og greddu gerir hún fólk frávita af blygðun, reiði og skömm dag hvern.

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home