13.9.06

Móðurlíf

,,Allamalla tralla! Hopp og hí! ÞÞÞ ÐÐÐ. ÞÞÞ ÐÐÐ." Tinna velti sér upp úr þornunum og eðunum eins og krakki. ,,En hvað þetta er nú gaman" hugsaði hún með sér. ,,Trallarallarallareiþúððóó í í í iððúúuáááá´´uúííééé´´eé! ó! AEÍOÚ!" Þetta hafði verið langur og strangur dagur fyrir hina brátt ekki svo nýbökuðu móður. Hún hafði vaknað klukkan 5 30 og gefið dóttur sinni að drekka. Þá var bóndinn þegar farinn í vinnuna svo hún leyfði litla ástaraldininu að sofa uppi í hjónadyngjunni, en fór sjálf fram að æfa sig að gera æfingar á sérstökum leikfimisbolta, sem hafði verið keyptur í London til að létta henni hríðirnar, en hafði fyrst verið uppblásinn tveimur dögum áður, og var nú til þess fallinn að koma slöppum vöðvum víðsvegar um líkamann í fyrra horf, ef ekki betra. Eftir nokkurt brölt á boltanum vaknaði barnunginn enn á ný og því þurfti að sinna honum. Í þetta sinn voru það bleyjuskipti og fékk unginn að berrassast í rúminu nokkra stund á meðan móðirin brá sér í örsnögga sturtu. Eftir það fékk afkvæmið enn að sjúga brjóst móður sinnar og eftir það dormuðu þær báðar. Þær brugðu sér í göngutúr á hádegi og hittu fyrir einn og annan, en eftir það kom gamall vinur móðurinnar í kaffi, og slúðruðu þau um liðnar stundir á meginlandinu. Vinurinn hafði getið sér gott orð sem kvikmyndaleikstjóri víðs vegar um heiminn og samgladdist móðirin honum. Seinni partinn lék hún svo við litla skinnið milli brjóstagjafa sí og æ. Svo sóttu þær pabbann og fóru með honum bæði í IKEA og Húsasmiðjuna. Þegar heim kom hóf móðirin að ganga frá þvotti og brá sér svo í bað, til að losa brjóstastíflu, á meðan unginn svaf. Þegar unginn vaknaði fékk hann að vera í fangi föður síns á meðan móðirin snérist hundrað hringi um svefnherbergið og lagaði til, sem eins og allir vita felst í því að umraða hlutum til og frá, þangað til faðirinn kom og lagðist í hjónarúmið með ungann sér við hlið og sofnaði, enda hafði hann farið að vinna um nóttina. Móðirin snérist þá með ungann, háttaði, gaf og skipti á einni kúkableyju, þangað til litla stýrið sofnaði loksins með snuðið sitt í vöggunni. Þá fór móðirin að velta fyrir sér tilgangi lífsins og hvort hún ætti heldur að skrifa ódauðlegt ljóð eða setja í vél, og vitaskuld varð síðari kosturinn fyrir valinu! Brátt mun móðirin unga leggjast til svefns því morgundagurinn bíður óþreyjufullur ekki anna minni, með mömmumorgnum, undirleikstímum, óþvegnum þvotti og öllu öðru sem fylgir lífi nútímaofurmóðurinnar.

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home