11.6.05

Næturvakt

Jæja. Byrjar maður að blogga. Til hvers er blogg?
Ég velti því stundum fyrir mér, og ég veit að margir sem velta því fyrir sér, hafa hætt því (þ.e. að blogga). Oft finnst mér bloggið vera óttaleg montrassasýning. Hverjum er hollt að tala og skrifa um sjálfan sig fyrir allra augum? Hvergi setur maður sjálfan sig á jafnháan stall, löðrandi í hroka og sjálfelsku. Vill maður virkilega að hugsanlega bláókunnugt fólk viti hvað maður er að pæla, eða hver maður er, og hverja maður þekkir? Eða dettur manni ef til vill í hug að einhver hafi gaman af því sem maður skrifar?! "Hey, lesiði mitt blogg! Það er svo ógeðslega fyndið! Ég er meira að segja með teljara á síðunni minni svo þið sjáið hvað það er ógeðslega vinsælt!!!!"
Jæja. Sjálfhverfa dagsins. Að blogga um blogg. Þarna féll ég á eigin bragði.
Mér þykir sjálfri mesta skemmtanagildið falið í að lesa hvað drífur á daga vina og ættingja erlendis, og heima líka. Samt stend ég mig að því að vafra stundum hlekk af hlekk ofaní bloggnetið. Les síður hjá bláókunnugum. Njósna um fyrrum kunnuga. Gamla bekkjarfélaga. Sæta stráka. Vinsælar stelpur.
Stundum hafa bloggskrif mín haft ígildi langra og íhugulla bréfaskrifta, sem ég stundaði og hef stundað af mismiklum krafti um árabil. Nú stend ég mig líka að því að senda færri bréf. Óskynsamleg þróun?
Hvað um það, þá var þetta afar meðvituð bloggfærsla, ætluð hinum almenna
blogglesanda, og bloggara. Góðar stundir.
p.s. og viljiði svo segja þessum bleyðum sem eru í ritnefnd Mímis að drullast til að lesa yfir, lesa póstinn sinn og hafa samband við mig! Kann þetta pakk enga mannasiði?

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home