Desperate housewife.
Ah. Loksins hef ég talið í mig kjark til að hefja blogg á ný. Eftir prófin hefur tíminn farið í innbúskaup, 2 nýjar mublur í þessari litlu íbúð, believe it or not, "hivingu" heimilisins (já, 2 tölvur sítengdar, í þessari litlu íbúð) undirbúning tónleika í Oddakirkju þann 23. júní næstkomandi og svo auðvitað blessað brauðstritið í Sóltúni. Þá afrekuðum við skötuhjúin að horfa á tvo síðustu þættina í seríunni um desparate housewifes, við erum orðin svo húkt, og eftir að við hæfuðumst er stanslaust niðurhalning í gangi, 24 hours a day. Ekki má gleyma því að fyrr í þessum mánuði festi ég kaup á knapa nokkrum rauðum, er gengur undir nafninu hjólið. Mikil bylting hefur orðið í lífi mínu eftir þessi bestu kaup sem gerð hafa verið, t.d. hjólaði ég í gær allt Seltjarnarnesið og út í Gróttu og þar var fagurt um að litast. Þá hélt ég áfram förinni um Seltjarnarnesið og til baka út á granda þar sem ég hitti hana Rut frænku mína snögglega. Eftir það hjólaði ég Kaplaskjólsveginn út á Ægisíðu, fornar æskuslóðir, og alla leið út í Nauthólsvík. Í þann mund sem ég var komin þangað komu 4 orrustuflugvélar svífandi með þvílíkum dómsdagshávaða að allt ætlaði um koll að keyra og blessuð börnin á sumarnámskeiðum í Nauthólsvík héldu að 11. september væri upp runninn. Það hélt ég reyndar líka, þetta var svo óhugnanlegt, þær voru svo nálægar flaugarnar, svifu í oddaflugi, og svo tók ein sig til og tók beint strik upp í loftið og snérist í hringi.. Bandaríkjamenn eru ruglaðir. Seinna heyrði ég í fréttunum af einhverri serímóníu í Fossvoginum. Gat skeð. Svo hjólaði ég mína leið heim og át og drakk og dandalaðist ein með sjálfri mér þar til ég fór í vinnuna. Í dag ætlaði ég mig hvergi að geta hrært úr fleti mínu fyrr en um hálf ellefu, svei sé því, og þó ekki því ég lá fyrir nokkra stund alklædd og lék einhvern tetrislegan leik í símanum... Victor var á einhverju ægilegu námskeiði í vinnunni og kom heim í hádeginu aldrei þessu vant og hin aðþrengda eiginkona skellti í léttan pastarétt. Síðan fór ég aðeins í sund og lét mig sjóða í heitum pottum sundhallar Reykjavíkur. Tók stuttan sprett í lauginni og ákvað svo að það væri svo heimskonulegt veður að ég yrði að fá mér kaffi á Beyglunni. Fékk mér sojalatte sem hefði betur aldrei verið, því hann er vondur sem brunnið poppkorn. En karamellumöffinsið var frábært. Nú er kominn tími til að haska sér í vinnuna, hjólandi með hjálm í sjálflýsandi vesti!
|
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home