30.12.04

Hottie

Jólin liðu á ofsahraða, eins og þeim yrði borgað fyrir það eitt að vera sérstaklega snögg, en á Viggó Viðutan brunaði blendingsparið yfir heiðina, og ástmaðurinn mataði ástkonuna á mandarínum með berkinum á þangað til þau runnu í hlað á prestssetrinu klukkan sex og fengu sér jólasturtu og höfðu aldrei litið hvort annað fegurra en á jólafötunum. Hamborgarahryggurinn hafði aldrei verið jafngóður, hvað þá Waldrofsalataið eða möndlugrauturinn, og gjafirnar voru allar góðar og fallegar og söngurinn í kirkjunni líka, þótt hringjarinn væri veikur. Jóladagurinn var sömuleiðis góður og fagur, þótt þau ræddu að slíta sambandinu, hún fór í messu og hann bjó til kakó og öll fjölskydan sameinaðist yfir ættarstellinu fagra og úðaði í sig sætabrauði og lummum með kakóinu fína. Hún spilaði nokkur jólalög á píanóið og svo fóru þau saman í húsin og gáfu fénu og hænsnunum og hundurinn gelti á músina sem hljóp hljóðlaust meðfram veggjum. Frostið var svo mikið að það var varla hægt að ganga í loftinu og kvöldinu eyddu þau í fíflalátum með systkinunum fyrir framan sjónvarpið, bæði komin með harðlífi af hangikjötsáti.
Hún fór í vinnunna á annan dag jóla og hann varð eftir í jólaboðinu með ættingjunum góðu og daginn eftir fóru þau í sundlaug fótgangandi alla leið austur í Laugardal.
Og núna er hún búin að kaupa sér áramótadress fyrir partýið í London annað kvöld og heimsóknina til tengdamömmu í París á nýjársdag! Ó mæ gad!

|

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home